Það eru þeir Jason Kelce, miðherji í sóknarlínu Philadelphia Eagles, og innherjinn Travis Kelce hjá Kansas City Chiefs. Ekki einungis eru þeir báðir meðal bestu leikmanna deildarinnar í dag, þeir eru einnig meðal bestu leikmanna í sinni leikstöðu frá upphafi.
„Ég hef nú ekkert nefnt neitt við hann hvað sálfræðihernað varðar,“ sagði Jason spurður í vikunni hvort að eitthvað slíkt væri uppi á teningnum hjá þeim bræðrum.
„Ég vildi frekar óska þess að ég vissi hvernig á að stöðva hann,“ bætti hann við.
Úrslitaleikir Ameríkudeildarinnar annars vegar og Þjóðadeildarinnar hins vegar fóru fram um þarsíðustu helgi en þar réðst hvaða lið kæmust í Super Bowl. Eagles lenti ekki í teljandi vandræðum með San Francisco 49ers en það var talsvert meiri spenna í viðureign Chiefs og Cincinnati Bengals.
Mamma þeirra bræðra, Donna Kelce, sagðist hafa átt erfitt með sig þegar það leið á leik Chiefs og Bengals.
„Skyndilega fer maður að hugsa - gæti þetta í alvörunni gerst. Þeir hafa látið sig dreyma um þetta síðan þeir voru 10 ára gamlir,“ sagði hún en Donna hefur verið ein helsta fjölmiðlastjarnan í Phoenix í Super Bowl vikunni og er nú orðin þjóðþekkt.
Viðureign þeirra bræðra fer fram annað kvöld og hefst leikur Eagles og Chiefs klukkan 23.30. Upphitun á Stöð 2 Sport verður frá klukkan 22.00.