Gera má ráð fyrir töluverðri úrkomu víðsvegar á landinu í nótt. Í fyrramálið tekur að hvessa allhressilega og gert er ráð fyrir því að lægðin láti finna almennilega fyrir sér um hádegisbil. Viðvaranir taka gildi á landinu öllu upp úr klukkan níu á morgun og eru þær í gildi fram á kvöld.

„Það kemur lægð vestan við landið á morgun og það verður suðvestan stormur og rok á stöku stað, 20-28 metrar á sekúndu. Með því fylgir einhver rigning og skúrir en þegar kólnar seinnipartinn og annað kvöld þá verður þetta éljagangur,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hann segir að veðrið verði verst á Vesturlandi og austur eftir Norðurlandi.
Gert er ráð fyrir því að hviður fari upp í fjörutíu metra á sekúndu, eða um 150 kílómetra hraða. Á „allra verstu hviðustöðunum,“ gætu þær náð fimmtíu metrum á sekúndu. Færð við fjöll gæti því verið varasöm og þá sér í lagi þegar kólnar. Éljagangur gæti spillt skyggni.

Annars staðar á landinu eru viðvaranirnar gular en gert er ráð fyrir suðvestan 18 til 23 metrum á sekúndu víðast hvar. Í höfuðborginni má gera ráð fyrir því að mesti vindhraðinn verði á svæðinu vestanverðu, meðfram sjónum, og í úthverfum Hafnarfjarðar.
Í yfirlýsingu frá Almannavörnum fyrr í dag voru vegfarendur beðnir um að sýna varúð og vera ekki á ferðinni að óþörfu á þeim svæðum þar sem veðrið verður verst. Miklar líkur séu á að veðrið hafi áhrif á samgöngur og hætta er á foktjóni. Fólk er hvatt til að festa lausa muni.