Hinn þrítugi Ólafur Karl hefur leikið með uppeldisfélagi sínu Stjörnunni undanfarin ár en hefur einnig leikið með Selfossi, Val og FH hér á landi ásamt því að spila fyrir Sandnes Ulf í Noregi og unglingaliði AZ Alkmaar í Hollandi á árum áður.
„Þetta er gríðarlega mikil liðsstyrking og verður gaman að sjá hann í appelsínugulu á þessu tímabili,“ segir í tilkynningu Árbæinga.
Ólafur Karl er sjötti leikmaðurinn sem gengur í raðir Fylkis frá því liðið tryggði sér aftur sæti meðal þeirra bestu hér á landi. Hinir eru:
- Elís Rafn Björnsson frá Stjörnunni
- Emil Ásmundsson frá KR
- Jón Ívan Rivine frá Gróttu
- Valgeir Árni Svansson frá Hönefoss
- Pétur Bjarnason frá Vestra
Fylkir varð hins vegar fyrir áfalli á dögunum þegar hinn 29 ára gamli Daði Ólafsson sleit krossband í hné.
Batakveðjur á þennan meistara @dadiola, krossbandaslit eru alls ekki góðar fréttir, kannast því miður við það að eigin raun. Nú er bara að taka endurhæfinguna með trompi #fylkir pic.twitter.com/C9NEzPuiPS
— Hrafnkell Helgason (@HrafnkellHelga7) February 9, 2023
Keflavík heldur áfram að sækja leikmenn eftir að missa vel rúmlega hálft byrjunarlið sitt frá því síðasta sumar. Framherjinn Viktor Andri er kominn frá Fjölni þar sem hann hefur spilað allan sinn feril.
Viktor Andri – sem verður 22 ára á árinu - skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar á síðustu leiktíð þegar Fjölnir endaði í 4. sæti Lengjudeildar.
Fylkir og Keflavík mætast í 1. umferð Bestu deildar þann 10. apríl næstkomandi.