Lífið

„Ég held að engin móðir vilji nokkurn tímann upp­­lifa þetta“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Harpa tókst meðal annars á við sorgina með því að prjóna. Margir nákomnir Hörpu hafa fengið fallega prjónaða flík að gjöf frá henni.
Harpa tókst meðal annars á við sorgina með því að prjóna. Margir nákomnir Hörpu hafa fengið fallega prjónaða flík að gjöf frá henni.

„Það sem mér finnst sárast í þessu er þegar fólk talar í kringum þetta, og vill ekki ræða þetta, af því að það heldur að það sé að særa mig. En það er akkúrat öfugt,“ segir Harpa Þöll Gísladóttir sem varð fyrir miklu áfalli þegar Þröstur sonur hennar fæddist andvana á tuttugustu viku meðgöngu. Hún segir reynsluna hafa verið lífsmarkandi.

Harpa er á meðal þeirra foreldra sem deila reynslusögu sinni í röð myndskeiða á vegum Gleym mér ei – styrktarfélags til stuðnings við foreldra sem missa barn á meðgöngu og í/eftir fæðingu.

Heimurinn hrundi

Harpa og eiginmaður hennar eiga fyrir tvö börn. Þau hafði lengi langað að bæta því þriðja við en að sögn Hörpu gekk það dálítið brösulega. Missti hún fóstur á níundu viku meðgöngu. Það var því mikil gleði og tilhlökkun á heimilinu þega Harpa varð ófrísk á ný sumarið 2017. Meðgangan gekk að óskum og Harpa var vel á sig komin.

Þann 13. nóvember mættu Harpa Þöll og eiginmaður hennar síðan í tuttugu vikna sónarskoðun.

„Þá er eitthvað lítið um hreyfingar, og ég svona missi út úr mér: „Hvað, eru menn bara sofandi hér?“ Og þá segir ljósmóðirin: 

„Því miður, það er bara ekkert líf hér inni.“

Ljósmóðirin þurfti því næst að ná í aðra ljósmóður til að staðfesta að barnið væri látið.

„Og við erum svolítið skilin eftir, með þessi orð þarna inni, bara tvö. Og það er einhvern veginn eins og heimurinn hrynji þegar maður meðtekur þetta, það sem er verið að segja , orðin liggja einhvern veginn eftir í loftinu, inni í herberginu. Þá kemur í ljós að litli strákurinn okkar var látinn, og var líklegast búinn að vera það í einhvern tíma.“

Með tíu fingur og tíu tær

Setja þurfti af stað fæðingu og Harpa lýsir ferlinu sem hófst tveimur dögum eftir að þau fengu fréttirnar. Fæðingin var lengi að fara af stað. Harpa segist hafa verið staðráðin í að harka hríðarnar af sér. Finna fyrir öllu. Litli drengurinn fæddist síðan seint um nótt.

„Hann var alveg heilbrigður, það var allt í lagi með hann. En hann var náttúrulega búinn að vera látinn í smá tíma. Þannig að ég vildi ekki að börnin myndu koma og sjá hann, kveðja hann. En hérna, já hann var bara dásamlegur, fullkominn ,með tíu fingur og tíu tær.“

Hún segir vel hafa verið hugsað um hana og fjölskylduna á spítalanum eftir þetta. Engin pressa hafi verið á þeim að fara heim á ákveðnum tíma, eins og gert er þegar um hefðbundna fæðingu er að ræða. 

Þá minnist Harpa sérstaklega á sjúkrahúsprestinn,Vigfús Bjarna sem gaf henni ráð til að takast á við sorgarferlið og allt sem því fylgir. Hún var því vel undirbúin, sérstaklega þegar kom að því að svara spurningum fólks og takast á við viðbrögð þeirra.

„Það er ekkert sem einhver segir sem lætur þér líða betur. Það er bara að vera til staðar, hlusta, faðma, gefa mér að borða, leika við börnin mín. Það er ekkert sem þú segir sem getur lagað hjartasárið. Maður sér ekki hvernig lífið eigi að halda áfram eftir þetta. Að fæða andvana barn. Ég held að engin móðir vilji nokkurn tímann upplifa þetta.“

Auðmjúkari og hræddari

Harpa segir að þeir sem eignist andvana barn þurfi að horfast í augu við brostna framtíðardrauma. Þá sé ferlið sérstaklega sárt fyrir eldri systkinin. Eitt af því sem hjálpaði Hörpu að takast á við sorgina og missinn var að prjóna.

„Ég held að ég hafi prjónað á nánast alla sem ég þekki. Og presturinn talaði einmitt um að þetta væri ákveðin sorgarúrvinnsla, að prjóna frá sér allt vit. Og svo fór ég að hlaupa. Þegar ég er ófrísk fæ ég alltaf svo mikla grindargliðnun að ég get ekki hreyft mig. Þannig að ég fór að stunda hlaup svolítið eftir það. Það er svakalega mikið heilun  fólgin í því. Ég fer reglulega í sveitina mína, þar sem að við eigum hús, afskekkt hús, og fer út að hlaupa og prjóna og það er svolítið minn tími til að fylla á tankinn eftir svona, núllstilla mig.“

Harpa segir það einnig hjálpa mikið að tala um hlutina, og sömuleiðis að skapa hefðir og venjur sem tengjast Þresti. Þá telur hún mikilvægt að hafa börnin með í umræðunni um Þröst og leyfa þeim að taka þátt.

„Þetta er virkilega lífsmarkandi reynsla. Maður verður kannski meira auðmjúkur, og hræddur líka. Maður veit að þetta getur allt gerst í þessu lífi. Og maður knúsar börnin sín kannski aðeins fastar og lengur eftir svona. Maður er ekki að hengja sig upp á einhverja litla hluti sem skipta ekki máli.“

Hér má finna fleiri myndskeið á vegum Gleym mér ei þar sem foreldrar deila sögu sinni af barnsmissi í fæðingu eða á meðgöngu.

Vilja að minning barna sinna lifi

Gleym mér ei styrktarfélag fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli. Félagið var stofnað árið 2013 af Önnu Lísu Björnsdóttur, Hrafnhildi Hafsteinsdóttur og Þórunni Pálsdóttur. Reynsla af missi á meðgöngu leiddi þær saman með það að markmiði að styðja fjölskyldur sem standa í þessum erfiðu sporum.

Nú þegar 10 ár eru liðin frá stofnun félagsins verður efnt til ráðstefnu um missi í barneignarferlinu. Ráðstefnan er ætluð heilbrigðisstarfsfólki og haldin í samstarfi við Háskóla Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og Ljósmæðrafélag Íslands. Félagið vill leggja sitt af mörkum til forvarnastarfs ásamt því að auka þekkingu og skilning þeirra fagaðila og starfsfólks sem annast fjölskyldur sem missa á meðgöngu, í fæðingu og á fyrstu mánuðum lífs.

Myndskeiðin þar sem foreldrar deila sögum sínum voru tekin upp á síðasta ári og birt nú á dögunum. Að sögn Ingunnar Sifjar Höskuldsdóttur hjá Gleym mér ei er tilgangur myndskeiðanna tvíþættur.

„Í fyrsta lagi hefur það sýnt sig að reynslusögur annarra foreldra hjálpa hvað mest þegar fólk stendur frammi fyrir því verkefni að læra að lifa með missi barns. Það gefur von og styrk að spegla sig í tilfinningum annarra og eignast fyrirmyndir í því sem framundan er. Þessar sögur hjálpa að auki oft foreldrum af fyrri kynslóðum sem fengu ekki að vinna úr missinum á sínum tíma. Í öðru lagi er mikilvægt að félagið vinni að því að auka rýmið í samfélaginu fyrir sorgina sem fylgir missi eins og þessum. Skilningur þeirra sem ekki hafa staðið í þessum sporum er mikilvægur og dýrmætur. Við trúum því að sorg sem fær það pláss sem hún þarf fái miklu frekar heilbrigða úrvinnslu.“

Ingunn segir Gleym mér ei hafa notið mikils stuðnings og velvildar alveg frá fyrsta degi.

„Það hefur alltaf gengið vel að fá fólkið okkar til þess að deila reynslu sinni og við gerð myndbandanna var engin undantekning þar á. Flestum foreldrum er afar mikilvægt að minning barna þeirra lifi og það að deila sögunum þeirra á þennan hátt er einn þáttur í því.“

Heimasíða Gleym mér ei.

Facebook síða Gley mér ei.

Instagram síða Gley mér ei.


Tengdar fréttir

„Það var ekkert sem tók við, hann dó um leið“

„Ég er meira og meira að reyna að hugsa um tímana sem við áttum með honum áður en hann greindist með hjartagallann. Það var yndislegur tími, og eitthvað svo saklaus. Og ég sakna pínu sakleysisins, að upplifa þessa saklausu hamingju,“ segir Kolbrún Ýr Einarsdóttir. 

„Það kom til­tölu­lega fljótt í ljós að það var enginn hjart­sláttur“

„Sorg, allvega eins og ég upplifi hana, fer svo mikið í að hugsa um hvað hefði orðið. Hvað tækifæri við áttum varðandi framtíðina. Og þó við hefðum aldrei fengið að halda á honum lifandi, þá vorum við byrjuð að plana, við vorum búin að sjá fyrir okkur í höfðinu hvernig lífið yrði. Alls konar væntingar og vonir, sem urðu svo ekki,“ segir Jón Þór Sturluson.

„Mér fannst þetta einhvern veginn breyta í mér erfðaefninu“

„Mér fannst einhver veginn eins og við kæmust aldrei í gengum þessa nótt. Fyrstu mínúturnar og klukkutímana þá er maður er bara einhvern veginn að reyna að lifa af,“ segir Freyr Eyjólfsson. Freyr og Hólmfríður Anna Baldursdóttir eiginkona hans upplifðu gífurlegt áfall þegar sonur þeirra Eldar fæddist andvana, á 34. viku meðgöngu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×