Innlent

Hertha Wendel fallin frá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hertha Wendel var hjúkrunarframkvæmdastjóri og sviðsstjóri barnaspítala Hringsins eða frá 1980-2000.
Hertha Wendel var hjúkrunarframkvæmdastjóri og sviðsstjóri barnaspítala Hringsins eða frá 1980-2000.

Hertha Wendel Jónsdóttir, fyrr­verandi framkvæmdastjóri Barnaspítala Hringsins, lést 26. janúar síðastliðinn á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut, 86 ára að aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum.

Hertha fæddist 19. desember 1936 í Reykjavík. Hún var dóttir hjónanna Herþrúðar Hermannsdóttur Wendel húsfreyju, f. 10.mars 1897, d. 22.apríl 1978, og Jóns Sigursteins Ólafssonar, forstöðumanns Bifreiðaeftirlits ríkisins, f. 11.maí 1892, d. 4. desember 1962.

Hertha lauk námi við Kvennaskóla Reykjavíkur og síðar frá Hjúkrunarskóla Íslands, 1958. Hún lauk námi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands, 1976, framhaldsnámi í barnahjúkrun 1977 og B.Sc. í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1987.

Hertha kenndi við Hjúkrunarskóla Íslands með hléum frá 1959-1970. Hún var kennslustjóri í barnahjúkrun 1978-1980, kenndi jafnframt heilsufræði og meðferð ungbarna við Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Lengst af var hún svo hjúkrunarframkvæmdastjóri og sviðsstjóri barnaspítala Hringsins eða frá 1980-2000.

Hertha gegni fjölmörgum trúnaðarstörfum, sat í stjórn félags áhugafólks um þarfir sjúkra barna 1979-1983, formaður deildar barna – og hjúkrunarfræðinga í Hjúkrunarfélagi Íslands 1977-1987, gekk í Delta Kappa Gamma, félag kvenna í fræðslustörfum 1978 og var bæði formaður í Gammadeild og síðar forseti Landssambands DKG.

Eiginmaður Herthu var Stefán M. Gunnarsson, fyrrv. Bankastjóri, hann lést 2011. Börn Herthu og Stefáns eru Jón Stefánsson, kvikmyndagerðarmaður og Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, mannauðsstjóri.

Útför Herthu fer fram miðvikudaginn 8. febrúar n.k. frá Kópavogskirkju kl 13.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×