Börnin eru nemendur við Rockwall-Heath High School í Heath í Texas, þar sem þeir leggja meðal annars stund á amerískan fótbolta. Á umræddri æfingu voru nemendurnir látnir gera 400 armbeygjur án þess að fá hlé til að hvíla sig eða drekka vatn.
Að sögn Dr. Osehotue Okojie kom sonur hennar heim af æfingunni afar verkjaður og gat ekki lyft handleggjunum. Hann var greindur með áreynslurákvöðvarof (e. rhabdomyolysis), sem verður meðal annars þegar orkubirgðir vöðva anna ekki eftirspurn.
Alvarlegasti fylgikvilli rákvöðvarofs er bráður nýrnaskaði.
Í bréfi sem skólastjóri Rockwall-Heath sendi á foreldra var greint frá því að fleiri börn hefðu þurft á læknisaðstoð að halda eftir æfinguna. Utanaðkomandi aðili yrði fenginn til að rannsaka málið og yfirþjálfarinn sendur í leyfi.
Maria Avila, móðir annars af nemendunum, sagði að sonur sinn hefði verið afar stirður eftir æfinguna og ekki getað lyft handleggjunum. Hún kallaði ástandið „martröð“ og sagðist hafa áhyggjur af andlegum áhrifum meiðslana á son sinn.