Þetta kom fram í síðari hluta Kryddsíldar þegar formenn flokkanna voru beðnir um að hrósa þeim sem sat á þeirra hægri hönd. Björn Leví reið á vaðið og hrósaði Bjarna Benediktssyni.
„Nú hef ég nokkurn veginn aldrei talað við Bjarna þannig ég þekki hann ekkert persónulega,“ sagði Björn Leví sem sagðist hins vegar þekkja Bjarna sem stjórnmálamann.
„Ég er ákveðinn spilanörd og ég kann að meta þá sem kunna að spila leikinn. Bjarni kann tímælalaust að spila leikinn, hann er rosalega góður í því og ég ber virðingu fyrir slíku,“ sagði Björn Leví.
Björn Leví tók sæti á þingi fyrst sem varaþingmaður Pírata árið 2014 en frá árinu 2016 hefur hann átt fast sæti á þingi. Bjarni Benediktsson hefur verið á þingi frá árinu 2003.
Horfa má á stórskemmtilegan hróshring í Kryddsíldinni hér að neðan: