Hart hefur verið deilt á vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar eftir að snjó kyngdi niður á aðfaranótt laugardags. Gagnrýni hefur ekki síst beinst að því að verktakar á vegum borgarinnar hafi verið lengi að byrja að ryðja húsagötur. Til stóð að ljúka mokstri í þeim nú í kvöld.
Alexandra Briem, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að hún hafi unnið að því að upplýsa hvað fór úrskeiðis til að bæta þjónustuna undanfarna daga. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hún að borgarbúar hafi skiljanlega verið ósáttir við hversu seint hafi gengið að ryðja götur.
Á fundi um stöðuna í snjóruðningsmálum sem hún boðaði til hafi komið fram að þó að allir verktakar á beinum samningum við Reykjavíkurborg hafi farið strax af stað nóttina sem snjókoman byrjaði hafi undirverktakar ekki verið tilbúnir með þá viðbótarþjónustu sem borgin hafi samið um að fá við aðstæður sem þessar.
„Það þýddi að það vantaði 26 tæki á göturnar fyrsta sólarhringinn og munar um minna. Við erum að rannsaka af hverju þetta gerðist og hvernig við getum tryggt að það gerist ekki aftur,“ skrifar Alexandra.