Mario Sandoval, 69 ára, er sakaður um að hafa tekið þátt í að láta hundruð vinstrimanna hverfa og pyntað þá þegar herforingjastjórn réði ríkjum í Argentínu frá 1976 til 1983. Alls er talið að herforingjastjórnin hafi látið um þrjátíu þúsund manns hverfa.
Ákæra gegn Sandoval laut þó aðeins að máli Hernáns Abriata, vinstrisinnaðs arkítektarnema. Lögreglumenn drógu Abriata út af heimili sínu árið 1976. Ekki er vitað hvað varð um hann en talið er fullvíst að hann hafi verið myrtur.
Sandoval var fundinn sekur um að hafa rænt Abriata og pyntað hann í vélstjóraskóla sjóhersins sem var á tíma herforingjastjórnarinnar stærsta leynifangelsi landsins. Fangelsið gekk undir nafninu Esma á meðal Argentínumanna.
Áætlað er að af þeim fimm þúsund körlum og konum sem voru færð í Esma hafi aðeins hundrað komist lífs af. Fangar voru yfirheyrðir og pyntaðir. Mörgum þeirra voru síðar gefin lyf og þeim hent út úr flugvélum út í sjó í svonefndu „skítugu stríði“ herforingjastjórnarinnar gegn vinstrisinnum og öðrum stjórnarandstæðingum. Börn fólks sem var látið hverfa með þessum hætti voru mörg ættleidd til vildarvina stjórnarinnar.

Gerðist háskólakennari og ráðgjafi í Frakklandi
Þeir sem lifðu stríðið af lýsa Sandoval sem einum miskunnarlausasta pyntingarmeistaranum í Esma, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hann á meðal annars að hafa bundið fanga við rúmgrindur úr málmi og pynta þá með rafmagnsstöng sem er annars notuð til þess að smala nautgripum.
Sandoval flúði Argentínu tveimur árum eftir að herforingjastjórnin féll og settist að í Frakklandi. Þar gerðist hann háskólakennari í Sorbonne og ráðgjafi í öryggis- og varnarmálum. Árið 2008 kom í ljós hver hann væri í raun og veru. Franskur dómstóll úrskurðaði að lokum að hann mætti framselja til Argentínu.
Fyrrverandi lögreglumaðurinn heldur enn fram sakleysi sínu.
Í sumar hlutu nítján fyrrverandi herforingjar þunga fangelsisdóma fyrir glæpi gegn mannkyninu. Á meðal þeirra var Santiago Riveros, 98 ára gamall fyrrverandi hershöfðingi. Riveros var fundinn sekur um fleiri en hundrað glæpi og hlaut lífstíðardóm.
Glæpirnir voru gegn 350 fórnarlömbum, á meðal þeirra sex starfsmenn verksmiðju bílaframleiðandans Mercedes Benz sem hægrisinnuð dauðasveit rændi vegna stuðnings þeirra við verkalýðsbaráttu. Verkamennirnir voru fluttir í Campo de Mayo-fangelsið sem Riveros stýrði þar sem þeir voru pyntaðir. Aldrei spurðist frá þeim aftur.