Tryggvi Snær Hlinason spilaði tæplega fjórtán mínútur í tapi gegn Basquet Girona. Tryggvi tók lítið til sín og gerði aðeins tvö stig og tók fjögur fráköst.
Basquet Girona tók frumkvæðið strax í fyrsta leikhluta þar sem Zaragoza skoraði aðeins átta stig á tíu mínútum og heimamenn komust þrettán stigum yfir. Zaragoza vann annan leikhluta aðeins með tveimur stigum og var Basquet Girona ellefu stigum yfir í hálfleik 38-27. Þrátt fyrir endurkomu Zaragoza í þriðja leikhluta voru heimamenn sterkari í síðasta fjórðungi og unnu níu stiga sigur 78-69.
Zaragoza er í fallbaráttu í ACB-deildinni á Spáni. Eftir tólf leiki eru Tryggvi og félagar í 14. sæti af átján liðum. Zaragoza hefur unnið þrjá leiki sem er einum sigurleik meira en neðstu tvö liðin í deildinni.