„Samkvæmt mínum upplýsingum er þetta rangt. Það standa engar viðræður yfir enda telja stjórnir lífeyrissjóðanna sér ekki heimilt að semja um skerðingu á eignum sjóðfélaga, þó það nú væri,“ sagði Jóhann Páll.
Þingmaðurinn benti á að nú liggi fyrir lögfræðiálit frá Róberti Spanó, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem fram komi að tillaga Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að setja ÍL-sjóð í þrot með lagasetningu feli í sér eignarnám, næði hún fram að ganga.
Slík lagasetning myndi baka ríkinu bótaskyldu gagnvart skuldabréfaeigendunum, meðal annars lífeyrissjóðum og almannaheillasamtökum. Kröfur samkvæmt skuldabréfaflokkunum og skilmálum þeirra teljist að fullu eign í skilningi stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka við hann, þar með talið höfuðstóllinn, verðbætur, áfallnir vextir og fastir samningsbundnir vextir út lánstímann.
„Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef enga trú á því að hæstv. fjármálaráðherra muni standa við stóru orðin og leggja fram frumvarpið sem hann boðaði.

Hann er algjörlega kominn út í skurð í þessu máli og í staðinn fyrir að þráast við ætti hann kannski bara að viðurkenna það og gangast við því að þessi sérkennilegi blaðamannafundur sem hann hélt hérna í haust, þar sem hann hótaði lagasetningu og þóttist geta stillt lífeyrissjóðum upp við vegg og hlaupist undan ríkistryggðum skuldbindingum, var frumhlaup,“ segir Jóhann Páll. Og það sem verra er, að mati þingmannsins, þá hafi Bjarni með þessu valdið verulegu tjóni.
„Þetta voru kúrekastælar, alvarlegt frumhlaup sem hafði strax áhrif á virði bréfanna. Á meðan hæstvirtur ráðherra viðheldur þessari óvissu í staðinn fyrir að gangast við því að hann hafi rangt fyrir sér þá verður virði þessara eignaflokka í óvissu, þá er virði bréfanna haldið niðri að ósekju og þannig er hæstvirtur ráðherra bæði að skaða trúverðugleika ríkissjóðs sem útgefanda skuldabréfa og í raun að skaða hagsmuni lífeyrissjóðanna og sjóðfélaga þeirra.“