Trump hélt áfram stoðlausum ásökunum sínum um að stórfelld kosningasvik hefðu kostað hann endurkjör í forsetakosningunum árið 2020 á samfélagsmiðlinum Truth í gær. Fyrrverandi forsetinn gekk þó lengra en oftast áður þar sem hann kallaði eftir því að stjórnarskráin yrði lögð til hliðar svo hægt væri að setja hann aftur í embættið.
„Stórfelld svik af þessu tagi og umfangi leyfa það að öllum reglum, reglugerðum, og greinum sé eytt, jafnvel þeim sem eru í stjórnarskránni,“ skrifaði Trump í færslu sinni.
Andew Bates, talsmaður Hvíta hússins sagði að allir ættu að fordæma yfirlýsingu Trumps þar sem það væri gegn þjóðarsálinni að ráðast á stjórnarskrána.
„Maður getur ekki bara elskað Bandaríkin þegar maður vinnur,“ sagði Bates, að sögn Washington Post.
Landsnefnd Demókrataflokksins fordæmdi ummæli Trumps í gær ásamt nokkrum öðrum stjórnmálamönnum, nær eingöngu demókrötum.
Svo virðist sem að tilefni færslu Trumps hafi verið „uppljóstranir“ sem Elon Musk, eigandi Twitters, boðaði um að fyrri stjórnendur samfélagsmiðilsins hefðu kæft tjáningarfrelsið í aðdraganda forsetakosninganna á föstudag. Ekkert kom þó fram í löngum þræði fyrrverandi blaðamanns sem Musk fékk til að birta innanhússsamskipti fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna um að miðlinum hefði verið beitt gegn Trump eða í þágu demókrata.