Hinn 27 ára gamli Adam Örn samdi við uppeldisfélag sitt Breiðablik fyrir sumarið en fékk ekki mörg tækifæri þar og fór á láni til Leiknis Reykjavíkur um mitt sumar. Þar áður hafði Adam Örn leikið lengi vel í atvinnumennsku.
Í viðali við Vísi nýverið kom Adam Örn inn á erfiða tíma í atvinnumennsku þar sem hann glímdi við erfið meiðsli í 18 mánuði áður en hann kom heim. Nú er hann hins vegar kominn á gott ról og stefnir á að minna fólk á hvað hann getur í sumar.
„Adam Örn er mjög gæðamikill leikmaður og hefur litið inn á æfingar hjá okkur undanfarið, hann á flottan feril og hefur verið atvinnumaður lengst af á sínum ferli. Við bindum miklar vonir við Adam og kynnum hann með stolti,“ sagði Agnar Þór Hilmarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram.
Fram endaði í 9. sæti Bestu deildar karla í sumar.