Hér erum við að tala um Heiðu Ingimarsdóttur en hún er komin rúmlega 8 mánuði á leið og er skráð í fæðingu í byrjun nýs árs. Barnið gæti þó fæðst fyrr eða seinna eins og allir vita. Heiða og fjölskylda búa í Fellabæ rétt við Egilsstaði.
En af hverju þarf Heiða að flytja suður með allt sitt fólk?
„Við eigum von á okkar fimmta barni og við fengum símtal fyrir einum og hálfum mánuði um að það verður ekki skurðlæknir á Neskaupstað og þar að leiðandi þurfum við að fara suður um jólin með alla okkar fjölskyldu og hund. Við fengum sumarhús á Suðurlandi og verður þar en erum þá allavega í nálægð við Landsspítalann ef að ég skyldi fara af stað,” segir Heiða.
Er þetta ekki meiriháttar mál fyrir ykkur?
„Jú, þetta er það því það er meira en að segja það, en við erum samt heppin að við vitum að þetta stendur til og þetta er ekki að koma okkur á óvart á meðan það er fólk, sem gæti þurft á að halda skurðlækni yfir jólin, sem hefur ekki fyrirvara.”
Heiða segir að ekki hafi fengist afleysing fyrir skurðlækninn, sem verður í fríi yfir jóla og áramót og því sé staðan eins og hún er. Sama hafi verið upp á teningnum síðasta sumar þegar læknirinn var í fríi.
Hvað finnst þér um þetta ástand?
„Þetta er bara ekki hægt, að geta ekki verið heima hjá sér yfir jólin og notið þess í rólegheitum síðustu vikurnar á meðgöngunni, heldur að þurfa að hafa áhyggjur af því að selflytja alla fjölskylduna þvert yfir landið og finna sér húsnæði.”

Heiða segir að allar íbúðir stéttarfélaganna hafi verið uppbókaðar á höfuðborgarsvæðinu yfir jól og áramót en að þau hafa verið svo heppin að fá sumarbústað í Grímsnesi.
Og þetta kostar heilmikið fyrir ykkur?
„Já, já, það er kostnaður af þessu og þetta er líka rót. Á sumrin hefði maður kannski getað komið börnunum í pössun en maður stígar ekki fjölskyldunni allri í sundur yfir hátíðirnar,” segir Heiða.