Undanfarna daga hefur verið varað við töluverðri rigningu á Austfjörðum. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum.
Aurskriðurnar í desember 2020 eru í fersku minni hjá íbúum Seyðisfjarðar en þá urðu fordæmalausar hamfarir í kjölfar úrhellisrigningar á svæðinu í hartnær eina viku. Mikið hefur rignt á svæðinu síðustu vikur og spáin gerir ráð fyrir áframhaldandi rigningu.
Ekki er gert ráð fyrir mikilli rigningu annars staðar á landinu. Þá mun hvessa talsvert sunnanlands í dag. Reikna má með staðbundnu hvassvirði undir Eyjafjöllum og við Reynisfjall með öflugum vindhviðum síðdegis
Vegfarendur sunnanlands eru hvattir til að hafa þetta í huga og aka eftir aðstæðum. Dregur síðan úr vindi og úrkomu sunnanlands í kvöld, en hvessir þá jafnframt eystra.
Veðurhorfur á landinu
Vaxandi austan- og suðaustanátt, 8-15 m/s og úrkomulítið fyrir norðan síðdegis, en 13-20 og rigning sunnanlands. Lægir syðst í kvöld, en hvessir heldur fyrir austan.
Suðaustan 8-15 á morgun, hvassast á annesjum og víða skúrir, en rigning með köflum austantil. Hiti 1 til 8 stig, mildast austast.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Suðaustan og austan 8-15 m/s, hvassast á annesjum. Rigning, einkum á Suðausturlandi og Austfjörðum, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 2 til 8 stig, hlýjast syðst.
Á mánudag:
Austan 8-15 m/s og dálítil rigning eða slydda öðru hvoru, en rigning suðaustantil. Hiti 0 til 6 stig, svalast norðaustantil.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Austan- og norðaustanstrekkingur og sums staðar dálítil rigning eða slydda, en bjart að mestu suðvestanlands. Hiti í kringum frostmark.
Útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðaustlæga átt. Líkur á slyddu öðru hvoru fyrir norðan og austan, rigningu syðst, annars þurrt að kalla. Hiti 0 til 5 stig.