Það var jafnt á nær öllum tölum í leik Frakklands og Hollands enda tvær gríðar sterkar þjóðir að mætast. Á endanum hafði Frakkland betur með tveggja marka mun, lokatölur 26-24.
Pauletta Foppa, Estelle Nze Minko og Laura Flippes voru markahæstar hjá Frakklandi með fjögur mörk hver. Angela Malestein var allt í öllu hjá Hollandi en hún skoraði níu mörk í leiknum.
Í D-riðli vann Spánn tveggja marka sigur á Þýskalandi, lokatölur 23-21. Um var að ræða fyrsta sigur Spánverja í keppninni. Sigurinn lyftir Spánverjum upp í annað sæti riðilsins sem þýðir að Pólland situr eftir með sárt ennið.
Carmen Campos Costa var markahæst í liði Spánar með sex mörk á meðan Alina Grijseels var að venju markahæst í liði Þýskalands, einnig með sex mörk.