Svali hefur fylgt íslensku þjóðinni síðan 1982 en nú hverfur hann senn á braut. Og tannlæknar landsins fagna eflaust. En það gera netverjar margir ekki; tilkynning Coca Cola á Íslandi um endalok Svala hefur fallið í grýttan jarðveg hjá þjóðinni. Hið rótgróna vörumerki er greinilega mörgum harmdauði.

Sumir segja um að ræða menningarmorð, aðrir hafa áhyggjur af börnunum og enn aðrir lýsa algjöru tilfinningalegu niðurbroti, eins og sést á meðfylgjandi mynd. En, svali er einfaldlega barn síns tíma, segir Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi.
„Þetta er svaladrykkur með sykri, sem höfðar til barna, sem samrýmist ekki okkar stefnu.“

Hin hatrömmu viðbrögð hafi verið viðbúin.
„Svali á sér fjörutíu ára sögu á íslandi og búinn að vera hluti af skólanestinu og hjá okkur öllum í mjög langan tíma. Okkur þykir öllum vænt um hann. Og ég get sagt að hundurinn minn heitir Svali og það er engin tilviljun sko,“ segir Einar.
Ákvörðunin er endanleg, segir forstjórinn. Og hana harma ekki aðeins netverjar.
„Ég er algjörlega niðurbrotinn. Maður ólst upp með svala,“ segir Ásgeir Hrannberg, mikill svalaunnandi sem fréttastofa rakst á í verslun á höfuðborgarsvæðinu í dag. Og Ásgeir gerði sér svo lítið fyrir og brast í söng; raulaði með tilþrifum stef úr eftirminnilegri svalaauglýsingu Jóns Páls Sigmarssonar og Sverris Stormsker.
Viðtalið við Ásgeir og umfjöllun fréttastofu um þessi stórtíðindi úr heimi drykkjarvara má finna í spilaranum hér ofar í fréttinni.