Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Telma Lucinda Tómasson les fréttir klukkan 18:30.
Telma Lucinda Tómasson les fréttir klukkan 18:30.

Úrslit nýafstaðinna þingkosninga í Bandaríkjunum velta á niðurstöðum í þremur ríkjum, þar sem gríðarmjótt er á munum. Hin svokallaða rauða bylgja repúblikana reið varla yfir, að sögn stjórnmálaskýrenda, og demókratar unnu hálfgerðan varnarsigur - þó að þeir bíði nú milli vonar og ótta.

Fjallað verður ítarlega um kosningarnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Silja Bára Ómarsdóttir sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum mætir í settið til þess að fara yfir stöðuna.

Kona sem greiddi um sjö milljónir króna í meðferðir og annan kostnað vegna ófrjósemi segir mikilvægt að fólk í sömu sporum fái meiri fjárhagslegan stuðning. Dæmi séu um að kostnaður fólks vegna slíkra aðgerða sé allt tuttugu milljónir. Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum.

Við ræðum einnig við formann Leigjendasamtakanna sem segir áform Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á næstu árum lítið gagnast leigjendum. Eina vonarglætan sé í uppbyggingu verkalýðsfélaganna sem enn eru aðeins með lítinn hluta leigumarkaðarins.

Þá verðum við í beinni frá Alþingi þar sem mælt var fyrir tillögu um að heimila notkun ofskynjunarsveppa í lækningaskyni í dag, kynnum okkur ástæður þess að framleiðslu á Svala verður hætt um áramótin og hittum píanóleikara sem vann til nýlega til alþjóðlegra verðlauna og kennir nú börnum í Hafnarfirði á hljóðfærið.

Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.

Hlusta má á fréttatímann í beinni í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×