Þegar þetta er skrifað sýnir talningin enn sem komið er að repúblikanar hafi yfirhöndina í fulltrúadeildinni, en að hnífjafnt sé í baráttunni um öldungadeildina. Það getur enn farið á báða vegu.
Þorvaldur er til viðtals um þetta og annað í Íslandi í dag en innslagið má sjá hér að ofan. Eins og yfirskriftin ber með sér er komið víða við í þætti dagsins, en viðtalið við Þorvald hefst á áttundu mínútu.

Þorvaldur fer ófögrum orðum um ástandið í bandarísku samfélagi: „Ég hef fylgst með þessu samfélagi og verið með annan fótinn í yfir 50 ár og mér líður ekki vel yfir því sem er að gerast þarna. Þarna eru tveir flokkar, annar þeirra hefur sagt lýðræðinu að heita má stríð á hendur og samt virðast þær ætla að ná meirihlutanum í fulltrúadeildinni þótt hann tapi vonandi öldungadeildinni. “ Þar vísar Þorvaldur til repúblikana.
„Beiskjan og úlfúðin í bandarísku samfélagi er þannig að margir telja það bara ramba á barmi nýrrar borgarastyrjaldar. Þarna eru bara stálin stinn, fólk talast ekki við, þingflokkarnir talast ekki við nema skiptast á svívirðingum inni á þinginu og þetta er bara nýtt. Þetta hefur aldrei verið svoleiðis. Og þegar forysturíki lýðræðisheimsins er komið í þetta ástand er ástæða fyrir okkur öll til að hugsa okkur um,“ segir Þorvaldur.
Þorvaldur segir að stóra meinsemdin í bandarískum stjórnmálum hafi verið sú þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna árið 2010 undir áhrifum frá repúblikönum ákvað að svipta burt öllum hömlum á fjárframlög til stjórnmálaflokka. „Þá tóku peningarnir yfir stjórnmálin og græðgin og forherðingin og síðan hefur ástandið snarversnað. Með öðrum orðum: Trump er ekki ástæðan, hann er afleiðingin,“ segir Þorvaldur.