Alls voru 930 metrar af fyrirhugaðri 2.200 metra langri flugbraut teknir í notkun. Fyrsta flugtakið var síðastliðinn fimmtudagsmorgun þegar Dash 8-200 flugvél Air Greenland hóf sig til flugs af nýju brautinni áleiðis til Kangerlussuaq-flugvallar.

Gamla flugbrautin er 950 metra löng en hún var tekin í notkun árið 1979. Með því að flytja flugumferðina af gömlu brautinni skapast betra svigrúm fyrir verktaka til að ljúka gerð nýju brautarinnar, sem á að vera fullbúin árið 2024.
Jafnframt er unnið að byggingu nýrrar flugstöðvar en Nuuk-flugvelli er ætlað að taka við hlutverki Kangerlussuaq sem aðalflugvöllur Grænlands.

Samhliða stækkun Nuuk-flugvallar er verið að leggja nýja 2.200 metra langa flugbraut við bæinn Ilulissat við Diskó-flóa og á það verk einnig að klárast árið 2024. Þriðja stóra flugvallaframkvæmdin er gerð nýs flugvallar við Qaqortoq, stærsta bæ Suður-Grænlands. Brautin þar verður 1.500 metra löng og er áætlað að hún verði tilbúin árið 2025.
Hér má sjá fyrsta flugtakið af nýju brautinni í Nuuk síðastliðinn fimmtudag í myndbandi frá Kalaallit Airports, flugvallafélagi Grænlands:
Í þessari frétt fyrir þremur árum var flugvallauppbyggingu Grænlands lýst með viðtali við Kim Kielsen, þáverandi forsætisráðherra: