Mikil meiðsli herja á leikmannahóp Danmerkurmeistaranna þessa dagana og sást það bersýnilega á byrjunarliði liðsins gegn Sevilla sem og varamannabekk þess. Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson, báðir fæddir 2003, hafa spilað nokkuð stóra rullu á þessari leiktíð en þeir eru langt frá því einu táningarnir sem spila með liðinu.
Alls voru sex táningar í byrjunarliði FCK gegn Sevilla en aldrei hafa fleiri táningar verið í byrjunarliði í Meistaradeildinni. Metið átti Arsenal en liðið stillti upp fimm táningum í leik árið 2009.
VORES DRENGE #fcklive #ucl #copenhagen pic.twitter.com/InV8ctMeRu
— F.C. København (@FCKobenhavn) October 25, 2022
Ásamt þeim Hákoni Arnari og Ísaki Bergmanni voru þeir William Clem [2004], Elias Jelert [2003], Valdemar Lund [2003] og Victor Kristiansen [2002] í byrjunarliði FCK gegn Sevilla.
Einnig komu tveir táningar inn af bekknum í leik gærkvöldsins. Framherjinn Orri Steinn Óskarsson (2004) fékk sínar fyrstu mínútur í Meistaradeildinni og þá kom ungstirnið Roony Bardghji (2005) einnig inn af bekknum.
Rætt verður við Orra Stein í kvöldfréttum Stöðvar 2 en hann er yngsti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeild Evrópu. Lengri útgáfa af viðtalinu verður svo aðgengileg á Vísi síðar í kvöld.
Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.