BBC greinir frá nýjustu vendingum þessa máls en Griner hefur verið í haldi Rússa síðan í febrúar á þessu ári, sökuð um eiturlyfjasmygl. Hún var handtekin á flugvelli í Rússlandi vegna hassolíu í rafrettu sem hún hafði í fórum sínum.
Í júlí játaði hún sök í málinu en sagði jafnframt að ásetningur hafi ekki verið til staðar, hún hafi ekki ætlað sér að brjóta rússnesk lög.
Griner hefur biðlað til Joe Biden, Bandaríkjaforseta að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að koma sér heim. Biden hefur sagt hald Rússa á Griner óréttmætt Griner hefur einnig hlotið liðsstyrk úr óvæntum áttum. Körfuboltamaðurinn Dennis Rodman sagðist í ágúst ætla til Rússlands til þess að krefjast lausnar Griner, það var í kjölfar fangelsisdómsins.
Bandaríkjamenn eru einnig sagðir hafa boðið skipti á vopnasölumanninum Viktor Bout sem kallaður er „Kaupmaður dauðans“ og Griner ásamt fyrrverandi sjóliða að nafni Paul Whelan. Whelan var handtekinn í Rússlandi árið 2018 og fangelsaður fyrir meinta njósnatilburði.