Þetta var ákveðið á fundi farsóttanefndar Landspítala sem fram fór í gær. Þeir sjúklingar sem leggjast inn á spítalann með öndunarfæraeinkenni verða héðan í frá skimaðir fyrir öllum veirum, ekki bara Covid-19.
Landspítalinn starfar enn á óvissustigi vegna Covid-19. Þar af leiðandi þurfa ferlisjúklingar og allir heimsóknargestir að bera skurðstofugrímu. Notkun fínagnagríma á bráðamóttökunni verður áfram valkvæð nema þar sem um er að ræða staðfest Covid-19 smit eða grunur sé um Covid-19 smit.
Einungis einn gestur er leyfður hjá sjúklingum á legudeildum innan skilgreinds heimsóknartíma. Undanþágur eru veittar við sérstakar aðstæður.
Hér fyrir neðan má lesa helstu gildandi sóttvarnareglur á Landspítala frá og með deginum í dag.
- Starfsmenn/nemar þurfa nú aðeins að bera skurðstofugrímu í beinum samskiptum við sjúklinga, hvort sem um er að ræða inniliggjandi sjúklinga eða ferlisjúklinga.
- Inniliggjandi sjúklingar þurfa ekki bera skurðstofugrímu þegar þeir fara út af deild í rannsóknir/meðferð en starfsmenn sem sinna þeim skulu bera grímu.
- Ferlisjúklingar og heimsóknargestir eiga að bera skurðstofugrímu.
- Notkun fínagnagríma á bráðamóttökum er valkvæð nema þar sem um er að ræða staðfest COVID smit eða grun um COVID.
- Ef starfsmaður/nemi er með einkenni öndunarfærasýkinga á viðkomandi ekki að vera í vinnu nema einkenni séu mjög væg og á undanhaldi en þá á starfsmaður að bera skurðstofugrímu þar til einkenni eru horfin.
- Heimsóknir til sjúklinga á legudeildum eru takmarkaðar við einn gest í einu (ásamt fylgdarmanni ef nauðsyn krefur) innan skilgreinds heimsóknartíma. Undanþágur eru áfram veittar við sérstakar aðstæður.
- Leyfi sjúklinga í endurhæfingarskyni og/eða sem undirbúningur fyrir útskrift eru heimil. Ekki þarf leyfi farsóttanefndar fyrir slíku.
- Sjúklingar sem koma á göngudeildir, dagdeildir og rannsóknardeildir í viðtöl/rannsókn/meðferð mega hafa með sér fylgdarmann. Báðir þurfa að vera með grímu.
- Reglur um útsetta sjúklinga er að finna í flæðiriti hér.
- Fundir starfsmanna eru heimilir án sérstakra varúðarráðstafana.
- Ekki þarf lengur að skima einkennalausa sjúklinga við innlögn. Skima skal sjúklinga með einkenni fyrir öllum öndunarfæraveirum. (Nýtt frá eldri reglum)