Erlent

Van der Bellen endur­kjörinn sem for­seti Austur­ríkis

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 78 ára Alexander Van der Bellen fagnaði í gærkvöldi en hann hefur gegnt forsetaembættinu frá í janúar 2017.
Hinn 78 ára Alexander Van der Bellen fagnaði í gærkvöldi en hann hefur gegnt forsetaembættinu frá í janúar 2017. AP

Alexander Van der Bellen var endurkjörinn sem forseti Austurríkis í forsetakosningum sem fram fóru í gær. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum frá innanríkisráðuneyti landsins fékk van der Bellen hreinan meirihluta atkvæða, en sjö voru í framboði.

Van der Bellen, sem gegnt hefur forsetaembættinu frá árinu 2017, hlaut samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum 54,6 prósent atkvæða og verður því ekki þörf á síðari umferð. Hefði enginn fengið hreinan meirihluta í kosningunum í gær hefði verið kosið aftur á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu.

Erlendir fréttaskýrendur hafa lýst Van der Bellen sem traustum leiðtoga á tímum þar sem Austurríkismenn glíma við hækkandi orkuverð og verðbólgu.

Van der Bellen starfaði áður sem hagfræðiprófessor við Vínarháskóla en hann var um árabil leiðtogi Græningjaflokksins í Austurríki. Hann hefur þó ekki boðið sig fram til forseta undir merkjum Græningjaflokksins heldur sem óháður.

Walter Rosenkranz, frambjóðandi hægriþjóðernisflokksins Frelsisflokksins, hlaut næstflest atkvæði í kosningunum í gær, eða 19,1 prósent atkvæða. Allir stærstu flokkar Austurríkis, að Frelsisflokknum, höfðu lýst yfir stuðningi við Van der Bellen með beinum eða óbeinum hætti.

Hinn 35 ára pönkrokkari Dominik Wlazny, sem er stofnandi Bjórflokksins, hlaut um tíu prósent atkvæða í forsetakosningunum, en meðal baráttuefna hans er að koma upp bjórgosbrunni í miðborg Vínarborgar.

Skipunartímabil forseta Austurríkis er sex ár, en embættið er að stærstum hluta valdalítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×