Mikil umræða spratt fram um skertan hag kvennaleikmanna í KR samanborið við karla í félaginu eftir að engar sjúkrabörur voru til taks í leik KR og Selfoss þann 18. september. Hannah Tillett, leikmaður KR, meiddist illa og lá sárþjáð á vellinum í fleiri mínútur áður en liðsfélagar hennar báru hana af velli.
Í viðtali við Vísi eftir þann leik sagði Christopher Harrington, annar þjálfara KR, að félagið yrði að sýna leikmönnum kvennaliðsins virðingu og þá myndi það skila sér á vellinum.
Fyrirliði liðsins, Rebekka Sverrisdóttir, sagði margt ábótavant í umgjörð kvennaliðsins eftir leik og kenndi um skorti á vilja og metnaði.
Páll Kristjánsson, formaður félagsins, svaraði þá fyrir málið þar sem hann kenndi um slökum árangri karla- og kvennaliðs KR í sumar og skorts á sjálfboðaliðum til að ganga í þau störf sem þurfi að fylla í kringum leiki liðsins.
Hafa óskað eftir formlegum fundi með stjórn KR
Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna voru endurvakin fyrir yfirstandandi tímabil en samtökin hafa verið með mál KR til meðferðar frá því að umræðan fór af stað. Lilja Dögg Valþórsdóttir, sem er varamaður í stjórn samtakanna, greindi þá frá því í Bestu mörkunum í síðustu viku að þónokkrar tilkynningar hefðu borist vegna KR til samtakanna í sumar.

Anna Þorsteinsdóttir, forseti Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna, birti færslu í Facebook-hópi samtakanna í vikunni þar sem greint er frá því að samtökin muni funda með KR á næstu dögum vegna málsins, sem og aðalstyrktaraðila félagsins, Alvotech.
„Við höfum meðal annars fylgst vel með fréttaflutningi og umræðu af stöðu knattspyrnukvenna hjá KR. Í upphafi sumars áttum við samtöl við fulltrúa KR en í ljósi umræðunnar seinustu daga hefur stjórn HKK nú óskað formlega eftir fundi með stjórn KR,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir í yfirlýsingu hennar að samtökin hafi verið í samstarfi við Alvotech þegar fyrirtækið stóð að nýju stuðningsmannalagi félagsins þar sem kynbundnum orðum var breytt. Lag Bubba Morthens, Allir sem einn, er því nú Öll sem eitt. Slíkt dugi hins vegar skammt þegar vandamálin virðast eins stór og umræða síðustu viku bendi til.
„Hins vegar þurfti stjórn að tilkynna Alvotech að í ljósi vísbendinga um bága stöðu knattspyrnukvenna hjá KR teldum við að meira þyrfi til en textabreytingu í stuðningslagi til að bæta stöðu kvenna hjá KR,“ segir í yfirlýsingunni.
Taka við ábendingum til að stuðla að breytingum
Eitt af meginmarkmiðum samtakanna er að auka jafnrétti innan knattspyrnuhreyfingarinnar og hafa samtökin því kallað eftir frekari gögnum til að sinna þeirri vinnu. Það sé snúið og því hafa samtökin kallað eftir því að almenningur sendi inn tilkynningar um það sem betur megi fara.
„Við höfum hins vegar einnig fundið fyrir því að verkefnið er viðamikið og nauðsynlegt að safna gögnum og greina vandann til að geta tekist á við hann. Til að byrja þá vinnu formlega hefur stjórn búið til rafrænt eyðublað þar sem öllum gefst tækifæri til að koma með ábendingar til samtakanna,“ segir í yfirlýsingunni.
Hér má nálgast rafrænt eyðublað samtakanna og koma að tilkynningu.