Innlent

Gríðar­­legt tjón í tugum í­búða eftir for­­dæma­­lausa raf­magns­bilun

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Mismiklar skemmdir urðu eftir íbúðum við Holtsveg í Urriðaholti.
Mismiklar skemmdir urðu eftir íbúðum við Holtsveg í Urriðaholti. vísir/vilhelm

Margra milljóna króna tjón varð í tæp­lega hundrað í­búðum í Urriða­holti á föstu­dag þegar bilun kom í raf­magns­götu­kassa og allt of há spenna komst inn á í­búðirnar. Gríðar­legur fjöldi heimilis­tækja skemmdist og dæmi eru um að lyftur í stiga­göngum séu ó­virkar.

Bilunin kom upp í kassanum síð­degis á föstu­daginn. Í­búar í fjölda í­búða við Holts­veg urðu þá fyrst varir við truflanir í ljósum á heimilum sínum en stuttu síðar fóru raf­tæki að gefa sig.

HS Veitur halda úti raf­magns­kassanum sem bilaði en for­stjórinn segir þetta í fyrsta skipti sem þeir sjá eitt­hvað sem þetta gerast. Kerfið í Urriða­holtinu er öðru­vísi en annars staðar að ósk byggingar­aðila þar.

„Við höfum ekki lent í þessu áður og eins og ég segi, þetta er greini­lega við­kvæmara með þessari út­færslu heldur en annars staðar, sem eitt­hvað þarf að kíkja á,“ segir Júlíus Jón Jóns­son, for­stjóri HS Veitna.

vísir/HS Veitur

Verið er að skoða hvað hægt sé að gera til að tryggja kerfið betur.

Einn íbúi á Holts­vegi lýsti því í sam­tali við frétta­stofu hvernig hann hefði orðið fyrir tals­verðu tjóni vegna bilunarinnar. Nokkur heimilis­tæki hefðu skemmst og lyftan í stiga­gangi hans orðin ó­virk.

Hið sama væri uppi hjá mörgum öðrum í götunni, sumir meta tjónið á um milljón krónur en tæki eins og ís­skápar, þvotta­vélar, sjón­vörp og tölvur hafa skemmst.

HS Veitum hefur borist fjöldi kvartana.

„Þær eru að koma inn núna bara "by the minute" svona stöðugt að berast inn. Og ég reikna með að það geti verið um átta­tíu til níu­tíu í­búðir án þess að við vitum það. Við vitum að það voru 118 í­búðir tengdar þessu og svo náttúru­lega sam­eignir og svona þess utan,“ segir Júlíus.

Hann getur ekki skotið á hvert heildar­tjónið sé en mun funda síðar í dag með tryggingar­fé­lagi Veitna um næstu skref.

Bilunin hafi ekki verið hættu­leg fyrir fólk. „Hún á ekki að vera það. En það getur alltaf verið eitt­hvað svona frík dæmi en það á ekki að vera það,“ segir Júlíus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×