Þetta verður í fyrsta sinn sem að kvennalandslið Íslands, sem situr í 14. sæti heimslistans, verður með í tölvuleiknum en nýi leikurinn kemur út um næstu mánaðamót. Karlalandsliðið hefur verið í leiknum síðustu ár.
Ísland er á meðal aðeins sautján landsliða í kvennaflokki sem verða í FIFA 23 en þar á meðal eru ellefu Evrópuþjóðir.
Fréttablaðið fjallar um þetta mál í dag og hefur eftir Stefáni Sveini Gunnarssyni, sviðsstjóra á markaðssviði KSÍ, að sambandið hafi gert kröfu um að kvennalandsliðið yrði með í leiknum, í viðræðum sínum við framleiðandann EA Sports um framlengingu samnings. Samningurinn skilar þó ekki auknum tekjum til KSÍ.
„Fyrir samninginn greiðir EA Sports engar fjárhæðir til okkar. Við metum þennan sýnileika þess virði að hann sé réttlætanlegur án greiðslunnar,“ segir Stefán við Fréttablaðið.
Tvö Íslendingalið í kvennadeildunum
Kvennalandslið Ástralíu og Nýja-Sjálands, sem halda HM á næsta ári, detta út úr tölvuleiknum frá því í FIFA 22 en inn koma Ísland og Argentína.
Tvær deildir með kvennaliðum verða svo í boði í FIFA 23, sú enska og sú franska. Það þýðir að hægt verður að spila með félagslið tveggja íslenskra landsliðskvenna, West Ham (Dagný Brynjarsdóttir) og PSG (Berglind Björg Þorvaldsdóttir).