„Það er erfitt að koma inn í leik sem er spilaður á svona háu tempói en ég var var staðráðinn í að koma inn með miklum krafti. Mér fannst það takast vel og það var frábært að ná að skora sigurmarkið," sagði Davíð Snær sem var hetja FH í þessum leik.
Steven Lennon brenndi af vítaspyrnu sem Davíð Snær nældi í skömmu eftir að hann kom inná sem varamaður en Davíð lét það ekki á sig fá.
„Það var nóg eftir af leiknum þegar Lennon klikkaði og algjör óþarfi að svekkja sig eitthvað á því. Við héldum bara áfram að sækja á þá eins og við höfðum verið að gera í seinni hálfleik," sagði miðvallarleikmaðurinn.
„Það hefur verið stígandi í okkar spilamennsku undanfarið og við höfum verið að koma okkur í betri stöðu í deildinni með því að ná okkur í stig í síðustu leikjum.
Nú er bara að halda áfram að hala inn stig í deildinni og það er gríðarlega jákvætt að vera komnir í bikarúrslitaleikinn. Nú lítum við bara fram á við og stefnum á að klára tímabilið vel," segir hann um framhaldið.
