„Hún er sturluð, ég held að þetta sé bara sætasti sigur sem ég hef unnið. Hann var geðveikur, var þetta ekki á 90. mínútu? Þetta var geggjað.”
Birnir skoraði sigurmark leiksins um leið og klukkan sló 90 mínútur þegar skot hans lak undir Jajalo í marki KA. Hvernig sá Birnir þetta gerast í rauntíma?
„Ingvar fleygir honum langt, ég sé Niko (Nikolaj Hansen) fara upp í skallaboltann þannig ég tek sénsinn, fer bak við hann, vinn boltann og kem honum á Arnór Borg í breiddina og hann gerir mjög vel; köttar inn, sér mig fyrir utan teig og ég set hann í fyrsta og bara þegar ég sparkaði í boltann fann ég að hann var á leiðinni í hornið en svo fór hann í einhvern varnarmann þarna og ég sé hann bara fara svona á mitt markið sko en hann endaði undir markmanninum og það var bara ljúft sko.”
Birnir Snær og Arnór Borg komu báðir inn á sem varamenn í síðari hálfleik auk þess sem Nikolaj Hansen kom inn á í hálfleik. Hver var munurinn á fyrri og seinni hálfleik?
„Mér fannst þetta svona svipað, ég veit ekki hvað vantaði í fyrri hálfleik, hann var ekki alveg nógu góður. Svo lendum við náttúrulega undir í seinni, það var högg, og sterkt að ná jöfnunarmarkinu fyrr en seinna en svo bara hefði þetta getað dottið báðu megin í lokin en datt okkar megin.”
„Ég held án gríns að þetta sé í fyrsta skipti sem ég kem til Akureyrar og vinn leik bara síðan í öðrum flokki sko. Það var Skúli frændi minn sem er hérna í KA sem sagði það fyrir leik að ég hafi aldrei unnið á Akureyri. Ég verð eiginlega að þakka honum fyrir sigurinn sko”, sagði Birnir léttur að lokum og gekk sigurreifur áleiðis.