Fyrsta myndbandið af Marin fór í dreifingu þann 17. ágúst síðastliðinn, í myndbandinu sást hún syngja, dansa og skemmta sér en myndböndin sagði hún hafa verið tekin fyrir nokkrum vikum síðan. Öðru keimlíku myndbandi af Marin var síðan lekið þann 19. ágúst.
Í kjölfar birtinga fór Marin í fíkniefnapróf til þess að sanna að hún hafi ekki neytt fíkniefna en hún var sökuð af andstæðingum sínum í þinginu um að hafa verið á eiturlyfjum þegar myndböndin voru tekin. Marin neitaði því staðfast og var prófið sagt neikvætt.
Í ræðu sinni í Lahti fyrr í dag segist Marin vonast til þess að horft sé til þess hvað hún geri í starfi sínu sem forsætisráðherra fremur en hvernig hún eyði frítíma sínum. Hún segist harma það að myndbönd sem þessi hafi farið í dreifingu en hún viti að almenningur vilji ekki sjá þau, ekki frekar en að hún hafi viljað þau í dreifingu. Miðillinn Ilta-Sanomat greinir frá þessu.
„Samt sem áður er þessu dreift, þetta er einkamál, þetta er gleði, þetta er lífið en ég hef ekki misst af einum vinnudegi, ég hef ekki sleppt einu einasta verkefni og það mun ég ekki gera,“ segir Marin.
Marin segir að hún muni læra af þessu og halda áfram að sinna starfi sínu vel.
Haft er eftir samstarfsmönnum Marin í flokki Sósíaldemókrata (SDP) þar sem þau segjast vona að nú verði hægt að einblína á erfið verkefni sem séu fram undan í vetur.