Það var á fjórða tímanum í dag sem öngþveiti skapaðst í verslunarmiðstöðinni.
„Við vorum bara að versla. Svo byrja allir að hlaupa og öskra. Það var allt orðið tryllt,“ segir Rakel Júlía Jónsdóttir í samtali við Vísi. Hún var þá komin út úr verslunarmiðstöðinni þar sem lögregla er enn með mikinn viðbúnað með tilheyrandi vegatálmum og lokunum.
Vitni hafa tjáð sænskum fjölmiðlum að tugum skota hafi verið hleypt af. Rakel Júlía segist ekki hafa heyrt skotin en vinkona hennar hafi fundið einkennilega lykt. Þær héltu fyrst að kannski hefði orðið einhver sprenging.
„Verslunarstjórinn vissi greinilega hvað hann átti að gera. Hún tók okkur bara og manni var eiginlega bara hent inn í geymslu,“ segir Rakel Júlía. Þar tróðu þær sér, konur og börn, inn á klósett og læstu sig inni.
„Við máttum ekki hafa nein læti og vorum með slökkt ljósin. Það mátti ekkert heyrast í okkur.“
Þau fylgdust með undir hurðinni og sáu móta fyrir hreyfingu. Svo heyrðust köll og öskur. Á meðan voru þær í óvissunni.
Rakel segir skotárásina hafa verið í verslun Zöru í verslunarmiðstöðinni. Þangað hafi hún ætlað nokkrum mínútum fyrr en ákveðið að hinkra eftir vinkonum sínum.
„Sem betur fer,“ segir Rakel Júlía.
Hún var í leit að eiginmanni sínum fyrir utan verslunarmiðstöðina þegar fréttastofa ræddi við hana.
„Hér er enn allt af fólki. Það eru allir í áfalli.“
Íslenski hópurinn gistir í íbúð í Kaupmannahöfn. Rakel Júlía segir að íbúðin sé við hliðina á verslunarmiðstöðinni Field's þar sem þrír voru skotnir til bana í skotárás í byrjun júlí. Íslendingur gisti þá í íbúðinni og segir Rakel þau hafa rætt það sín á milli hve óhugnaleg tilfinning það hlyti að hafi verið að vera á svæðinu þegar sú árás átti sér stað.
Svo hafi þau skellt sér í dagsferð til Malmö og upplifað skelfingu af svipuðum toga.