Cheney beið lægri hlut fyrir Harriet Hageman í forkosningunum í gær. Hageman er tiltölulega ný á hinu pólitíska sviði og naut hún ötuls stuðnings Trumps og bandamanna hans.
Hin 56 ára Cheney var önnur af einungis tveimur þingmönnum Repúblikana sem átti sæti í þingnefnd sem rannsakaði tilraunir Trumps til að halda völdum eftir að hann tapaði fyrir Demókratanum Joe Biden í forsetakosningunum 2020.
Cheney, sem er dóttir Dick Cheney, fyrrverandi varaforseta, þótti áður ein af helstu vonarstjörnunum innan Repúblikanaflokksins.

Í frétt BBC segir að allir þeir tíu þingmenn Repúblikana, sem greiddu atkvæði með því að ákæra Trump eftir að stuðningsmenn hans réðust inn í bandaríska þinghúsið þann 6. janúar 2021, hafi orðið að skotmörkum stuðningsmanna Trumps sem hafa unnið að því hörðum höndum að bola þeim frá völdum eða úr flokknum.
Enn sem komið er hafa fjórir þeirra ákveðið að setjast í helgan stein og fjórir þeirra hafa beðið lægri hlut í forkosningum flokksins vegna þingkosninganna í nóvember næstkomandi, gegn frambjóðanda sem nýtur stuðnings Trumps – í Wyoming, Washington, Michigan og Suður-Karólínu.
Hinum tveimur hefur þó tekist að vinna sigra í forkosningunum flokksins og verða þeir í framboði fyrir flokkinn í kosningunum sem fram fara 8. nóvember.