Lögmaðurinn Tungnath Chaturvedi gat ekki sætt sig við það þegar indverska ríkislestarfyrirtækið rukkaði hann um níutíu rúpíur í stað þeirra sjötíu sem hann átti að greiða fyrir tvo lestarmiða árið 1999. Hann reyndi án árangurs að fá mismuninn endurgreiddan á staðnum og höfðaði því mál fyrir neytendadómstóli í Mathura á Indlandi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins um málið.
Eftir rúmlega eitt hundrað þinghöld er loksins komin niðurstaða í málið. Lestarfyrirtækið hefur verið dæmt til að greiða Chaturvedi fimmtán þúsund rúpíur í bætur og tuttugu rúpíurnar sem hann var ofrukkaður um. Endurgreiðslan ber jafnframt tólf prósent ársvexti frá 1999. Það gerir 271 rúpíu í heildina.
Chaturvedi segir bæturnar vera smáaura samanborið við það sem hann lagði á sig til þess að vinna málið. Hann segir málið hafa valdið sér hugarangri í gegnum árin og að fjölskylda hans hafi ítrekað hvatt hann til að falla frá málarekstrinum.
„Það er ekki peningurinn sem skiptir mig máli. Þetta var alltaf barátta fyrir réttlæti og gegn spillingu, svo þetta var þess virði,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir honum.