Innlent

Hafa náð að fækka komum á bráða­mót­töku tals­vert

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Jón Magnús Kristjánsson hefir verið ráðinn til að leiða viðbragðsteymi heilbrigðisráðuneytisins um bráðaþjónustu í landinu. Teyminu er ætlað að bregðast við alvarlegri stöðu innan bráðaþjónustunnar.
Jón Magnús Kristjánsson hefir verið ráðinn til að leiða viðbragðsteymi heilbrigðisráðuneytisins um bráðaþjónustu í landinu. Teyminu er ætlað að bregðast við alvarlegri stöðu innan bráðaþjónustunnar. vísir/arnar

Á­taks­hópi heil­brigðis­ráð­herra hefur tekist á­gæt­lega að fækka komum á bráða­deild Lands­spítalans. Miklar breytingar eru fram undan á bráða­þjónustu í landinu að sögn formanns hópsins.

Hópurinn var skipaður af heil­brigðis­ráð­herra um miðjan síðasta mánuð.

Álag og mann­ekla hafa lengi verið stórt vanda­mál í heil­brigðis­þjónustu landsins og ekki bætti heims­far­aldurinn úr skák síðustu tvö árin.

„Fyrstu verk­efni við­bragðs­hópsins voru að finna leiðir til að létta á á­lagi hérna á Land­spítalanum,“ segir Jón Magnús Kristjáns­son for­maður hópsins.

Það hefur tekist á­gæt­lega að tækla það verk­efni að sögn Jóns Magnúsar.

„Þetta fór náttúru­lega nokkuð seint af stað, um miðjan júní. En það hefur þó tekist þannig til að það virðast vera um þúsund færri komur á bráða­mót­tökuna á Land­spítalanum í júní­mánuði í ár miðað við það sem var í fyrra,“ segir Jón Magnús.

Glæsileg aðstaða á leiðinni

Fréttir af sjúk­lingum á göngum bráða­mót­tökunnar, upp­sögnum starfs­fólks og gríðar­legu á­lagi hafa lengi verið á­berandi. Að­staða starfs­fólks á Land­spítalanum er þá gjarnan nefnd sem eitt helsta vanda­málið á eftir á­laginu.

Innan veggja sem er verið að reisa við Nýjan Land­spítala við Hring­braut verður nýtt rými fyrir bráða­mót­tökuna. Húsið verður til­búið árið 2026. Það tók tíu ár að hanna rýmið og verður að­staðan þar í hæsta gæða­flokki. Það eitt og sér mun þó ekki leysi öll vanda­mál bráða­mót­tökunnar.

„Það mun breyta miklu fyrir starfs­fólkið að komast í betri starfs­að­stöðu en ef við náum ekki að leysa hvernig við viljum skipu­leggja kerfið fram að því þá mun þetta vera skamm­góð lausn,“ segir Jón Magnús.

Og þetta er aðal­verk­efni hópsins eftir sumarið - að endur­skipu­leggja allt bráða­kerfi landsins.

Brýnt er að leysa fráflæðisvanda spítalans. Fólk sem hefur lokið með­ferð á legu­deild kemst sjaldnast strax í önnur með­ferðar­úr­ræði.

„Það gerir það að verkum að ein­staklingar sem að þurfa að leggjast inn af bráða­deildinni komast ekki inn á legu­deildir og þess vegna er alltaf þessi flösku­háls hérna á bráða­mót­tökunni. Þannig það er verið að leita leiða til að þjónusta fólk annars staðar, hvort sem það er í gegn um dag­deildir og göngu­deildir spítalans, á öðrum heil­brigðis­stofnunum eða í gegn um heilsu­gæsluna,“ segir Jón Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×