Landsbankinn segir í tilkynningu að aldrei skuli staðfesta innskráningu eða millifærslu nema fólk ætli sér raunverulega að millifæra. Í vikunni hafi bankinn fengið tilkynningar um að fólk hafi verið lokkað inn á falska innskráningarsíðu fyrir netbanka Landsbankans.
Í einhverjum tilvikum hafi viðskiptavinir slegið inn notendanafn og lykilorð og þar með hafi netþrjótarnir verið komnir með þær upplýsingar. Í kjölfarið hafi fólk fengið beiðni frá sveikurunum að auðkenna sig, meðal annars með því að gefa upp leyninúmer.
Þessar upplýsingar nægi þó ekki til að svikararnir geti skráð sig inn í netbankann eða app heldur verður að staðfesta innskráningu með því að veita samþykki, til dæmis með auðkenningarnúmeri sem berst með SMS-skilaboðum.
Bankinn ítrekar eftirfarandi:
- Aldrei samþykkja innskráningu, millifærslu eða aðrar aðgerðir í netbanka/appi nema þú sért raunverulega að framkvæma þessar aðgerðir.
- Ekki samþykkja innskráningu með rafrænum skilríkjum nema þú sért í raun og veru að nota þau til að skrá þig inn.
- Óvíst er hvort hægt sé að endurheimta fé sem tapast með þessum hætti og þá getur þú setið uppi með tjónið.
- Við sendum þér aldrei hlekki sem leiða þig inn á innskráningarsíðu netbankans eða appsins. Farðu alltaf inn á vefinn okkar eftir hefðbundinni leið – www.landsbankinn.is – til að skrá þig inn í netbankann.
- Viðskiptavinir sem hafa skráð inn upplýsingar á svikasíðu þurfa strax að skipta um lykilorð inn í netbankann/appið og leyninúmer á reikningum.
- Við mælum með að þú kynnir þér netöryggismál og varnir gegn netsvikum á landsbankinn.is/netoryggi.
Verði fólk fyrir slíkum svikum skuli það:
- Hafðu samband við okkur sem fyrst í síma 410 4000, með tölvupósti á landsbankinn@landsbankinn.is eða á netspjalli.
- Ef kortinu eða kortanúmerinu þínu er stolið getur þú fryst það strax í Landsbankaappinu.
- Utan afgreiðslutíma banka getur þú hringt í neyðarnúmer kortafyrirtækja. Neyðarnúmer Valitors, sem gefur út Visa-kort, er 525 2000.
- Þú getur tilkynnt lögreglu um svikin með því að senda tölvupóst í netfangið cybercrime@lrh.is.
Greinin hefur verið uppfærð.