Ladine skoraði 23,9 stig, tók 5,9 fráköst og gaf 8,1 stoðsendingu í 26 leikjum með Hraunamönnum á síðasta tímabili. Var hann stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar og sá áttundi yfir flest framlagsstig.
Ladine mun bæði leika með meistaraflokki Breiðabliks á næsta tímabili og taka að sér þjálfun hjá yngri flokkum liðsins.
„Clayton þykir traustur bakvörður, með gott skot og að auki þótti hann einstaklega góður liðsmaður, bæði innan og utan vallar og stóð sig vel í þjálfun yngri flokka, en hann mun jafnframt taka að sér þjálfun hjá deildinni,“ skrifaði KKD. Breiðabliks í tilkynningu sinni fyrr í dag.
Clayton Riggs Ladine er Bandaríkjamaður með franskt vegabréf og mun hann því ekki fylla ígildi Kana hjá liðinu. Það er tekið fram í tilkynningu félagsins að liðið verði fullmannað þegar búið er að finna Bandaríkjamann fyrir komandi leiktímabil en Samuel Prescott Jr. sinnti því hlutverki á síðasta leiktímabili hjá Blikum.