Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að kennsla hefjist í Fossvogsskóla í haust þrátt fyrir að einhverjum verklegum þáttum verði ekki lokið fyrir upphaf skólastarfs þann 22. ágúst.
Málefni Fossvogsskóla hafa mikið verið í deiglunni síðustu misserin vegna myglu í skólanum. Nemendur voru fyrst færðir úr skólanum í mars 2019 og síðast í mars í fyrra.
„Það eru eiginlega fjórir vetur sem börnin hafa verið meira og minna á hrakhólum. Börn sem luku fjórða bek í vor hafa aldrei verið í eðlilegu skólastarfi. Þetta hefur haft mjög neikvæð áhrif á skólagönguna og komið niður á líðan barnanna,“ hefur Morgunblaðið eftir Karli Óskari Þráinssyni, formanni foreldrafélags Fossvogsskóla.
Fyrst um sinn verður skólastarf í tveimur álmum Fossvogsskóla, Austur- og Vesturlandi, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um afdrif Meginlands, þeirrar álmu sem verst er farin. Foreldrar hafa farið fram á það að Meginland verði rifið en borgin heldur í vonina um að nýta megi álmuna með verulegum breytingum.