Tarantino og eiginkona hans, Daniella Pick, eignuðust saman soninn Leo árið 2020 og núna um helgina eignuðust þau annað barn sitt, stúlku í þetta sinn.
Í viðtali við Empire talaði Tarantino um að hann og Roger Avary, vinur hans og samstarfsmaður, hafi verið að reyna að kynna börn sín fyrir kvikmyndum. Þar sem Leo, sonur Tarantino, er ekki nema tveggja ára hefur hann ekki enn fengið að sjá margar myndir.
Að sögn Tarantino var Aulinn ég 2 fyrsta myndin sem drengurinn sá og horfði hann á hana í litlum bútum yfir heila viku. Fyrir utan Aulann mig 2 hafa þeir feðgar horft mikið á Gurru grís saman og segist Tarantino kunna að meta þættina. Það mikið að leikstjórinn kallaði teiknimyndagrísinn „bestu útflutningsvöru Breta á þessum áratugi.“