Blaðamaður hafði samband við Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóra Elko, sem greindi frá opnun nýju verslunarinnar.
„Við erum að flytja gamla búð í Skeifunni og erum að fara úr sirka þúsund fermetra búð yfir í fjórtánhundruð fermetra,“ sagði Arinbjörn um nýju búðina.

Ásamt því að fara úr gömlu rými í nýtt segir Arinbjörn verslunin vera innréttaða með glænýjum innréttingum og að fjöldi stórra hágæðaskjáa þeki veggina.
Playstation 5 í verslun í fyrsta skiptið
Verslunin opnaði klukkan 9 í morgun en þrátt fyrir rigningu og kulda var kominn löng röð af fólki fyrir utan verslunina um tuttugu mínútum áður en hún opnaði.
„Við verðum með opnunartilboð alla helgina, við erum með þannig háttinn á þegar við opnum nýjar verslunar,“ sagði Arinbjörn um opnunina. Frá fimmtudegi og fram yfir helgina verða þessi opnunartilboð fáanleg í verslun Elko í Skeifunni.

Vafalaust hafa einhverjir verið spenntir fyrir opnun nýju búðarinnar og þeim opnunartilboðum sem voru þar í boði. En þær hundrað Playstation 5 tölvur sem voru til sölu við opnunina hafa líklega spilað stærsta rullu í að trekkja fólkið að.

Frá því að þessi fimmta og nýjasta útgáfa Playstation-tölvunnar kom út í nóvember 2020 hefur tölvan verið illfáanleg um allan heim.
Hérlendis hefur hún yfirleitt selst hratt upp í hvert skipti sem bæst hefur í lagerinn. Fólk hefur því eflaust hugsað sér gott til glóðarinnar þegar það heyrði af tölvunum hundrað.
„Við erum með Playstation 5 í verslun í fyrsta skipti í verslun. Við höfum eingöngu selt hana á vef upp á að hafa jafnt aðgengi fyrir alla. En núna erum við í fyrsta skipti með Playstation úti á gólfi, hundrað stykki,“ segir Arinbjörn.
„Það hefur verið mjög erfitt að fá þær og að anna eftirspurn. Og verður erfitt að anna eftirspurn alveg fram á næsta ár,“ sagði Arinbjörn um tölvuna illfáanlegu.
