McCallum lýsti ógninni sem „umbyltandi“ og Wray sagði hana gífurlega umfangsmikla og „ótrúlega“. Wray varaði við því að Kínverjar hefðu meðal annars haft afskipti af stjórnmálum í Vesturlöndum og þar á meðal af nýlegum kosningum.
Þeir McCallum og Wray fluttu ræður í höfuðstöðvum MI5 í dag og er það í fyrsta sinn sem forsvarsmenn þessara stofnana gera það, samkvæmt frétt BBC. Leiðtogar úr viðskiptalífinu í Bretlandi og forsvarsmenn háskóla hlustuðu á ræðurnar og sneru þær að miklu leyti að fjármálum.
Sjöfalt fleiri rannsóknir
Í ávarpi sínu sagði McCallum að umsvif Kínverja í Bretlandi hefðu aukist til muna á undanförnum árum. Frá árinu 2018 hefði fjöldi rannsókna sem vörðuðu Kína sjöfaldast.
Hann sagði eina rannsóknina snúa að því að breskum manni hefði verið boðið vel launað starf í Kína. Eftir viðræður um starfið og tvær ferðir til Kína hefði hann verið beðinn um leynilegar og tæknilegar upplýsingar um herþotur. Þær upplýsingar hafi hann átt að færa kínversku fyrirtækið sem væri leppur fyrir her Kína.
McCallum nefndi annað mál þar sem bresku verkfræðifyrirtæki var boðinn samningur af kínversku fyrirtæki. Tækni breska fyrirtækisins hafi hins vegar verið stolið og enginn samningur gerður. Að endingu hafi breska fyrirtækið farið í þrot vegna tækniþjófnaðarins.
Grófu upp erfðabreytt fræ
Wray varaði við því að forsvarsmenn viðskiptalífsins í Vesturlöndum áttuðu sig ekki á ógninni frá Kína. Meðal annars nefndi hann tilfelli þar sem kínverskir útsendarar hefðu grafið upp erfðabreytt fræ í Bandaríkjunum og komist þannig hjá dýrri og tímafrekri rannsóknarvinnu.
Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa lengi kvartað yfir umfangsmiklum njósnum Kínverja vestanhafs. Þeir hafa sakað Kínverja um njósnir og þjófnað á ýmiskonar leyndarmálum, hvort sem tengjast vopnum og hernaði eða viðskiptum og tækni.
Í ræðu sinni sagði Wray einnig að Kommúnistaflokkurinn hefði byggt upp umfangsmikið kerfi til tölvuárása og stafrænna njósna. Það væri mun umfangsmeira en í nokkru öðru ríki og það notuðu Kínverjar til að „svindla og stela á massívum skala“.
Wray ræddi einnig um mögulega innrás Kínverja í Taívan og sagði að ráðamenn í Peking hefðu dregið ákveðinn lærdóm af innrás Rússa í Úkraínu. Meðal annars ynnu Kínverjar nú að því að einangra sig og verja sig gegn mögulegum refsiaðgerðum ef þeir skyldu gera innrás í Taívan.
Það kallaði Wray ákveðna vísbendingu um ætlanir Kínverja, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Ráðamenn í Kína hafa ítrekað sagt að ekkert muni koma í veg fyrir sameiningu Kína og Taívans og að ef þess þurfi, þá muni þeir gera innrás í eyríkið.