Í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið birt drög að reglugerð um framkvæmd úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs, sem varð til við uppskiptingu gamla Íbúðalánasjóðsins. Samkvæmt lögum frá 2019 er fjármála- og efnahagsráðherra skylt að setja reglugerð þar sem kveðið er á um áhættuvilja og áhættustýringu ÍL-sjóðs, hvernig háttað skuli eignastýringu sjóðsins og eftirliti sem og hvert hlutverk verkefnisstjórnar skuli vera.
„Seðlabankinn telur óheppilegt hversu lengi hefur dregist að setja reglugerðina þegar haft er í huga að ÍL-sjóður er mjög stórt eigna- og skuldaumsýslufélag með skráð verðbréf í kauphöll,“ segir í umsögn Seðlabankans.
Umgjörðin sem felst í drögunum [...] er of almennt orðuð og ekki nægilega ítarleg til að viðunandi geti talist þegar svo mikið er í húfi
Reglugerðin kveður á um að markmið reksturs ÍL-sjóðs sé að draga úr misvægi eigna og skulda í efnahagsreikningi sjóðsins eins og unnt er. Samkvæmt ársreikningi ÍL-sjóðs fyrir árið 2021 var sjóðurinn sé rekinn með tapi, eigið fé sjóðsins er neikvætt, verðtryggingarjöfnuður sjóðsins einnig neikvæður. Ef fram heldur sem horfir mun sjóðurinn ekki eiga fyrir afborgunum og vöxtum af skuldum eftir árið 2034.
„Því er afar mikilvægt að takast megi að draga úr misvægi eigna og skulda sjóðsins. Í því ljósi vekur athygli að reglugerðin fjallar með mjög almennu orðalagi um áhættustefnu ÍL-sjóðs og lausafjárstýringu og fjárfestingarstefnu. Með tilliti til stærðar ÍL-sjóðs og þeirra miklu fjárhagslegu hagsmuna sem ríkissjóður stendur frammi fyrir vegna ríkisábyrgðar á sjóðnum hefði mátt skilgreina með mun skýrari hætti alla þessa þætti í starfsemi sjóðsins,“ segir jafnframt í umsögn Seðlabankans.
Lækkun vaxta á síðustu árum hefur leitt til mikilla uppgreiðslna á útlánum sjóðsins. Þar sem sjóðurinn er hættur útlánastarfsemi er uppgreiðslum ráðstafað í innlán og skuldabréf sem bera í dag lægri vexti en eru á skuldum sjóðsins. ÍL-sjóður tapaði 13,9 milljörðum króna á síðasta ári og eigið féð var í árslok neikvætt um 196,6 milljarða króna.
Í reglugerðinni er einnig fjallað um verkefnisstjórn ÍL-sjóðs sem skal vera ráðherra til ráðgjafar um úrvinnslu eigna og skulda og veita álit á ráðstöfunum í tengslum við úrvinnsluna. Verkefnastjórnin skal enn fremur gera tillögur að ráðstöfnum vegna úrvinnslu eigna og skulda og hafa eftirlit með tilteknum þáttum í starfsemi sjóðsins, nánar tiltekið framkvæmd fjárfestingar- og áhættustefnu ÍL-sjóðs.
Seðlabankinn hefur áður lagt áherslu á að gæta þurfi armslengdarsjónarmiða vegna ákvarðana er varða fjárhagsleg málefni sjóðsins milli ráðherra annars vegar og stjórnskipulags ÍL-sjóðs hins vegar. Að mati Seðlabankans kemur fyrirkomulag samkvæmt reglugerðinni um verkefnastjórn með óljósa ábyrgð og markmið ekki í stað slíks skipulags og uppfyllir ekki kröfur sem eðlilegt er að gera.
„Eins og fram kemur hér að framan eru hér mjög miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir ríkissjóð. Gera má ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að taka á sig verulegar skuldbindingar vegna tapreksturs ÍL-sjóðs og neikvæðs eigin fjár. Umgjörðin sem felst í drögunum að reglugerð um framkvæmd úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs er of almennt orðuð og ekki nægilega ítarleg til að viðunandi geti talist þegar svo mikið er í húfi,“ segir Seðlabankinn.
Ríkisábyrgð er á skuldum sjóðsins og er gert ráð fyrir að reyna muni á þá ábyrgð á komandi árum. Fram kemur í fjármálaáætlun 2023-2027 að verði sjóðurinn rekinn út líftíma skulda, og að gefnum forsendum um þróun vaxta og verðbólgu, megi gera ráð fyrir að núvirt framtíðartap geti verið um 230 milljarðar króna.