Fyrir helgi bárust fregnir af mikilli aukningu í veikindum þeirra sem greinast smitaðir af Covid-19. Þeir sem eru helst að leggjast inn á spítala með sjúkdóminn er fólk yfir áttatíu ára sem á eftir að þiggja fjórða skammtinn. Því var sá hópur hvattur til þess að bóka tíma í bólusetningu.
Að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fylltist allt á heilsugæslunum eftir þetta.

„Þá ákváðum við að bæta þessu við, það væri hægt að koma hingað í opið hús á milli eitt og þrjú næstu tvær vikurnar. Heilsugæslustöðvarnar ætla að halda áfram sínu plani, þetta er bara það sem við erum að bæta við til viðbótar. Ef fólk hefur ekki fengið tíma eða misst af einhvern veginn, þá ætlum við að reyna að gera þetta og koma fleirum að,“ segir Ragnheiður í samtali við fréttastofu.
Bólusett er í almannarými og grímuskylda er í húsinu. Bólusett verður með bóluefni Pfizer en hægt er að fá bóluefnið Janssen ef óskað er eftir því. Til að geta fengið fjórða skammt bóluefnisins þurfa að lágmarki fjórir mánuðir að hafa liðið frá þriðja skammti
Ragnheiður vill þó hvetja þá sem eiga bókaða tíma að mæta frekar í þá tíma en á opna húsið.