Neytendur

Hægt að nálgast ó­dýrari bjór eftir laga­breytinguna

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ólafur K. S. Þorvaldz, gestgjafi í Ægisgarði, telur nýju lagabreytinguna aðeins fyrsta skrefið í átt að enn meira frelsi með verslun á áfengi.
Ólafur K. S. Þorvaldz, gestgjafi í Ægisgarði, telur nýju lagabreytinguna aðeins fyrsta skrefið í átt að enn meira frelsi með verslun á áfengi. vísir/einar

Stærsta breyting á áfengislögum frá því að bjórbanninu var aflétt var samþykkt í gær. Bruggarar eru himinlifandi með áfangann en vona að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í átt að frjálsum áfengismarkaði á Íslandi.

Bjór og annað á­fengi hefur aldrei mátt kaupa neins staðar á Ís­landi nema í ríkinu. Það er að segja ef menn vilja taka það með sér heim og njóta þess þar.

Næstu mánaða­mót verður breyting á þessu en með lögum sem Al­þingi sam­þykkti í gær­kvöldi verður sala á­fengis heimil frá fram­leiðslu­stað; öllum brugg­húsum sem fram­leiða minna en 500 þúsund lítra á ári. Það gildir um öll smærri brugg­hús landsins nema Kalda eins og staðan er í dag.

Eitt þeirra er úti á Granda, Ægis­garður, og þar eru menn himin­lifandi með tíðindin.

„Ég held það sé nú ekki hægt að segja annað en að við séum bara mjög á­nægð með það að geta loksins farið að af­greiða vöruna beint frá okkur í staðinn fyrir að þurfa að senda alla sem koma inn og óska eftir öðru en bjór á dælu í ÁTVR,“ segir Ólafur S. K. Þor­valdz, gest­gjafi í Ægis­garði.

Bjór í Ægisgarði. Þessi er af dælu og hann taka menn ekki heim með sér í glasi. vísir/einar

Og þetta gæti falið í sér verð­lækkanir. Alla­vega ætlar Ólafur í Ægis­garði sér ekki að leggja þau 18 prósent sem ÁTVR leggur auka­lega ofan á vörur sínar, eftir á­lagningu á­fengis­gjalds og virðis­auka­skatts, ofan á þann bjór sem hann mun selja út úr húsi. Það er að segja - hér verður í kringum 18 prósenta verð­lækkun á hans bjór ef hann er keyptur beint úr húsi. Hann veit svo ekki hvað önnur lítil brugg­hús ætla sér að gera.

„Þetta er eitt­hvað sem við erum búin að vera að berjast fyrir mjög lengi; að fá breytingar á lögunum þannig að við verðum í raun sam­keppnis­hæfari,“ segir Ólafur.

Allir sáttir við breytinguna

Breið sam­staða var um breytinguna á þingi. Allir þing­menn sem voru við­staddir greiddu at­kvæði með henni. Og margir telja þetta að­eins fyrsta skrefið.

„Ég styð þetta mál og kalla eftir heildar­endur­skoðun á úr sér genginni og úr sér genginni ís­lenskri á­fengis­lög­gjöf,“ sagði Sig­mar Guð­munds­son, þing­maður Við­reisnar, fyrir at­kvæða­greiðslu um málið í gær og tók Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra síðar undir með honum.

Sigmar Guðmundsson er þingmaður Viðreisnar. Hann vill sjá frekari afléttingar á einokunarsölu ríkisins með áfengi.vísir/vilhelm

„Ég held að þetta sé fyrsta litla skrefið af vonandi mörgum. Næsta verður bara að opna á vef­verslun og lækka á­fengis­gjöldin til smá­fram­leið­enda,“ segir Ólafur.

Því fleiri dagar til að skála í bjór því betra

Stærsta breyting frá því að bjór­banninu var af­létt árið 1989 að sögn ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins sem lagði frum­varpið fyrst fram fyrir tveimur árum.

Og flokks­systir hennar, Hildur Sverrisdóttir, er sam­mála og kallaði eftir því í gær að halda sér­stakan brugg­hús­dag há­tíð­legan.

„Ég ætla að leyfa mér að segja að ég held af þessu til­efni að 15. júní, eða jafn­vel 16. júní eftir at­vikum, verði haldinn há­tíð­legur, eins og við höfum haldið upp á bjór­daginn frá fyrsta mars 1989, og kalla hann brugg­hús­daginn!“ sagði Hildur á þing­fundinum.

Ólafur er þessu sam­mála en telur 1. júlí, daginn sem lögin taka gildi hentugri til að halda slíkan brugg­hús­dag há­tíð­legan.

„Ég held að ég sé alltaf til í að fá fleiri daga inn í árið þar sem fólk er að skála í bjór. Þannig það yrðu þá bjór­dagurinn 1. mars og brugg­hús­dagurinn 1. júlí.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×