Útbreiðsla Covid-19 sjúkdómsins hefur farið vaxandi síðustu daga en nú greinast um og yfir tvö hundruð manns með sjúkdóminn á dag. Fjöldi þeirra með Covid er þó líklega meiri en margir greinast með heimaprófi og fá greininguna því ekki staðfesta með opinberu prófi.
Á vef landlæknis kemur fram að flestir þeirra sem hafa verið að greinast síðustu daga hafi ekki fengið Covid áður, en endursmit eru undir tíu prósent af daglegum smitum.
Flestir þeirra sem liggja inni eru eldri en sjötíu ára en alvarleg einkenni sjást aðallega hjá þeim sem hafa fengið þrjár eða færri bólusetningar.
Almenningur, sérstaklega þeir sem eru áttatíu ára eða eldri eða með undirliggjandi sjúkdóma, er hvattur til þess að gæta að sínum sóttvörnum. Þeir sem ekki eru bólusettir eru þá hvattir til þess að þiggja bólusetningu og þeir sem eru yfir áttatíu ára eða á hjúkrunarheimili til þess að þiggja fjórða skammt bólusetningarinnar.