Miðað við þinglokasamninga flokkanna er stefnt að því að ljúka þinginu annað kvöld eða á fimmtudagsmorgun með atkvæðagreiðslum.
Nokkur frumvörp ríkisstjórnarinnar ná ekki í gegn en af þeim hafa útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra og leigubílafrumvarp innviðaráðherra helst verið í umræðunni upp á síðkastið. Fleiri minni málum ríkisstjórnarinnar var einnig frestað fram á næsta þing.
Önnur helstu mál hennar fá afgreiðslu fyrir þinglok. Þar má nefna kvikmyndastyrki, stjórn fiskveiða, sorgarleyfi og rammaáætlun en umræður um hana ættu að klárast í kvöld ef allt gengur eftir.
Fjallað var um þinglok í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld:
Ósætti stórra stjórnarandstöðuflokka, Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar, við breytt fyrirkomulag á veitingu ríkisborgararéttar gæti þó sett þetta plan í algert uppnám og flokkarnir farið að tefja mál þangað til sátt næst um ríkisborgararéttinn.
Hingað til hefur verið hefð fyrir því að rétt fyrir þinglok afgreiði Alþingi umsóknir þeirra sem hafa sótt um veitingu ríkisborgararéttar hjá þinginu. Útlendingastofnun neitaði í vor að afhenda Alþingi þær umsagnir sem þingið þarf á að halda frá stofnuninni til að geta afgreitt umsóknirnar. Hún hefur þó skilað þeim en ljóst er að hún vilji breyta þessu fyrirkomulagi.
Formenn einhverra þingflokka funduðu seint í dag um þetta atriði og voru nokkuð bjartsýnir á lendingu í því fyrir fundin. Honum lauk þó rétt fyrir klukkan sex án niðurstöðu. Nákvæmlega í hverju ágreiningurinn felst hefur fréttastofa ekki fengið staðfest en ljóst er að stjórnarandstöðuflokkarnir eru tilbúnir til að fella önnur atriði þinglokasamninganna niður ef ekki næst sátt um málið. Þetta gæti sett þinglokin í algert uppnám og valdið því að þingmenn komist ekki í sumarfrí á allra næstu dögum.