Útboðið var því stækkað um tuttugu prósent og heildarvirði seldra hluta var tæplega 8,7 milljarðar króna.
í tilkynningu frá Nova segir að eftirspurn eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A hafi verið tæplega þreföld, miðað við grunnstærð útborðsins. Einnig var umfram eftirspurn eftir öllum hlutum í áskriftarbók B.
Útboðsgengi í báðum áskriftarbókum nam 5,11 krónum á hlut. Fjárfestum verður tilkynnt um úthlutanir á morgun. Gjalddagi er 16. júní og stendur til að afhenda hlutina til fjárfesta þann 20. júní.
Degi síðar eiga viðskipti með hina nýju hluti að hefjast.
Sjá einnig: Mæla með kaupum í Nova og verðmeta félagið á yfir 22 milljarða
„Nú er vel heppnuðu hlutafjárútboði lokið og við fögnum áhuga fjárfesta á félaginu. Í apríl síðastliðnum fór fram hlutafjáraukning þar sem sterkur hópur fjárfesta kom að borðinu. Nú hefur hluthafahópur félagsins styrkst enn frekar með aðkomu almennings og fjölda öflugra stofnanafjárfesta. Við lítum björtum augum til framtíðar og hlökkum til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins í samstarfi við nýja hluthafa,“ er haft eftir Hugh Short, stjórnarformanni Nova Klúbbsins.
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri, segir forsvarsmenn fyrirtækisins hæstánægða með að fá að bjóða um fimm þúsund manns velkomna til að taka þátt í að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu stærsta skemmtistaðar í heimi.
„Þá er sérstaklega ánægjulegt að sjá þátttöku núverandi viðskiptavina en um 1.500 þeirra tóku þátt í útboðinu. Nú tekur við næsti kafli í sögu Nova sem skráð félag og erum við spennt að hringja bjöllunni þann 21. júní næstkomandi,“ segir Margrét.