Þó skutlið sé án endurgjalds munu ungir Sjálfstæðismenn taka á móti framlögum sem eiga að fara í sjóð til þess að safna fyrir erlendum aðilum sem vilji sækja sér leigubílaréttindi hér á landi en geti það ekki þar sem námskeið fyrir þau réttindi sé á íslensku og engin túlkaþjónusta sé í boði.
Í tilkynningu frá SUS segir að skapast hafi neyðarástand á leigubílamarkaði á íslandi og stórst gat þurfi að fylla. Stjórnvöld hafi þó einungis boðað lágmarksaðgerðir.
„Þetta ástand býður uppá að einstaklingar bíða einir í yfir klukkutíma eða taka rafhlaupahjól ölvuð úr bænum, keyra undir áhrifum áfengis og skutlaramenningin stækkar með tilheyrandi hættu - sérstaklega fyrir ungar konur,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.
SUS-liðar munu skutla fólki milli tíu og eitt í kvöld, samkvæmt upplýsingum á Facebook.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) lýsti því yfir í fyrra að reglur um leigubílaleyfi hér á landi væru ekki í samræmi við EES-samninginn. Núverandi löggjöf gerði nýjum rekstraraðilum erfitt eða ómögulegt að komast inn á markaðinn.
Sjá einnig: Ísland fær spark í rassinn vegna reglna um leigubíla
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um leigubílaakstur, sem ætlað er að færa reglurnar til nútímalegra horfs.
Sitt sýnist hverjum þó um kosti þessa frumvarps. Eins og kemur fram hér að ofan eru Ungir Sjálfstæðismenn og fleiri á þeim nótum að ganga þurfi mun lengra. Formaður félags leigubifreiðastjóra gefur þó lítið fyrir gagnrýni á kerfið eins og það er í dag og telur hagsmuni neytenda best borgið með núverandi löggjöf.