Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Kýpur 5-0 | Stórsigur fleytti Íslandi í umspil

Sverrir Mar Smárason skrifar
Liðið fagnar með stúkunni í leikslok.
Liðið fagnar með stúkunni í leikslok. Vísir/ Hulda Margrét

Íslenska U-21 árs landsliðið í fótbolta tryggði sér í kvöld sæti í umspili um laust sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Georgíu og Rúmeníu á næsta ári.

Ísland vann glæsilegan 5-0 sigur þegar liðið fékk Kýpur í heimsókn á Víkingasvöllinn í lokaumferð riðils síns í undankeppni mótsins í kvöld. 

Portúgal gerði Íslandi greiða með því að leggja Grikkland að velli í kvöld og þar af leiðandi er sæti Íslands í umspilinu tryggt.

Það var virkilega vel mætt í stúkuna í kvöld og stuðningurinn sem ungu strákarnir fengu var frábær.

Leikurinn fór fjörlega af stað því strax á tíundu mínútu var Ísland komið yfir með marki frá Kristalli Mána. Varnarmenn Kýpur hreinsuðu frá hornspyrnu en boltinn barst til Kolbeins Þórðarsonar sem sendi boltann aftur inn í teiginn. Kristall var fyrstur á boltann og skallaði hann snyrtilega yfir markvörð Kýpur. Frábær byrjun hjá íslenska liðinu.

Kristall skallar boltann yfir markvörð Kýpur og skorar fyrsta markið.Vísir/ Hulda Margrét
Kristall Máni fagnar marki í Víkinni. Ekki í fyrsta skipti.Vísir/ Hulda Margrét

Eftir markið steig lið Kýpur ofar á völlinn og gerðu Íslendingum aðeins erfitt fyrir í pressu og spili en íslenska liðið stóðst það og komu inn öðru marki á 32. mínútu leiksins. Óli Valur Ómarsson fékk þá boltann út til hægri, kom sér inn í teig Kýpur og sendi boltann fyrir markið. Boltinn fór framhjá Kittos í marki Kýpur og svo af varnarmanninum Antreas Karamanolis og í netið.

Kittos og Karamanolis svekktir að sjá boltann í eigin neti.Vísir/ Hulda Margrét

Kýpur hélt áfram að reyna að stíga ofar á völlinn og fá færi en íslenska vörnin var þétt og föst fyrir. Staðan í hálfleik 2-0.

Síðari hálfleikur hófst með enn meiri látum en sá fyrri því að á 48. mínútu komumst við að því að Portúgal væri komið yfir gegn Grikklandi í hinum leik riðilsins og svo voru þeir komnir í 2-0 á 56. mínútu. Það líkaði íslenska liðinu vel og ákváðu þeir því að tryggja sinn sigur með tveimur mörkum á næstu átta mínútum. Það fyrra gerði Kristall Máni af nærsvæðinu eftir frábæra sendingu frá Óla Val og Kristall lagði svo upp fjórða mark liðsins á Sævar Atla sem potaði boltanum inn á fjær eftir sendingu Kristalls.

Kristall Máni fagnar öðru marki sínu og þriðja marki Íslands.Vísir/ Hulda Margrét

Leikurinn róaðist töluvert við þessi tvö mörk Íslands og Davíð Snorri, þjálfari, fór að skipta mönnum inná. Kýpur var sprungið og missti trú á verkefninu. Íslenska liðið hélt boltanum mikið og vel. Ísland átti þó enn eftir að skora fimmta markið. Það gerði Kristian Nökkvi Hlynsson á lokamínútu venjulegs leiktíma eftir undirbúning varamannanna Orra Steins og Dags Dan. 5-0 sigur Íslands í lokaleik riðilsins staðreynd en í sömu andrá og flautað var af í Víkinni bárust fréttir af því að Grikkir hefðu minnkað muninn í Portúgal.

Bræðurnir Kristian Nökkvi og Ágúst Eðvald Hlynssynir fagna marki Kristians.Vísir/ Hulda Margrét

Um 90 sekúndum síðar brutust út mikil fagnaðarlæti í Víkinni því flautað hafði verið af í Portúgal og umspilssæti Íslands því tryggt. Magnaður viðsnúningur hjá íslensku strákunum í síðustu þremur leikjum riðilsins.

Dregið verður í viðureignir umspilsins 21. júní næstkomandi og umspilsleikirnir fara fram í september.

Af hverju vann Ísland?

Íslenska liðið var virkilega vel skipulagt í kvöld líkt og í síðustu leikjum, leikmenn þekkja sín hlutverk og allir að róa í sömu átt. Heilt yfir í dag voru gæði íslenska liðsins meiri í dag. Mikið sjálfstraust og trú innan liðsins í bland við einstaklingsgæði sem kláruðu þennan leik. Magnað að sjá hvað leikmenn eru tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir hvorn annan.

Hverjir voru bestir?

Kristall Máni og Óli Valur voru magnaðir á hægri væng Íslands í dag. Óli Valur lagði upp tvö mörk á meðan Kristall skoraði tvö og lagði upp eitt. Auk þess spiluðu þeir sig ótalmörgum sinnum í gegnum vörn Kýpur.

Bjarki Steinn spilaði vinstri bakvörð í dag og leysti það hlutverk frábærlega. Hann byrjaði sem kantmaður en eftir að hafa staðið sig vel í væng-bakverði hefur hann verið færður niður í bakvörð í þessu liði og gerir það mjög vel.

Þetta var fullkominn leikur svo liðið í heild var frábært.

Hvað gerist næst?

Liðið leikur í umspili um sæti í lokakeppni EM2023 í september á þessu ári. Það á eftir að koma betur í ljós hverjum við mætum og sömuleiðis hverjir verða með enda getur margt gerst á 3 mánuðum í fótbolta.

Davíð Snorri Jónasson: Við áttum okkur draum að geta spilað fleiri leiki

Davíð Snorri til viðtals eftir leik.Vísir/ Hulda Margrét

Davíð Snorri, þjálfari liðsins, var gríðarlega ánægður og stoltur af liðinu eftir leikinn í dag.

„Tilfinningin er frábær. Við áttum okkur draum að geta spilað fleiri leiki. Við getum gert það núna í september og gert atlögu að lokamótinu, það var eitt markmiðið. Hitt var að við settum upp okkar litla lokamót hérna heima í júní og ætluðum að klára okkar ímyndaða riðil. Við gerðum það. Það er eitt að sækja sigur, annað að sækja tvo og annað að sækja þrjá. Virkilega sterkt og ég er stoltur af strákunum,“ sagði Davíð Snorri.

„Það skín í gegn að við reynum að vera hugrakkir, vera einbeittir og sýna jákvæða orku. Við höldum því áfram. Við eigum efnilega stráka sem eru tilbúnir. Það er mikið búið að tala um hversu sterkir þeir eru í fótbolta og þeir eru efnilegir en það er líka „attitude“ og þeir eru tilbúnir í að hlaupa fyrir hvorn annan. Það má ekki gleyma því.“

Umspilið er líkt og fyrr segir í september. Það getur margt gerst þangað til segir Davíð.

„Ég nýti aðallega tímann í að undirbúa þetta. Strákarnir fara bara og spila með sínum liðum og reyna að standa sig vel. Svo bara sjáum við til í september hvernig standið er á mönnum. Það getur margt gerst frá júní til september,“ sagði Davíð að lokum.

Myndir:

Vísir/ Hulda Margrét
Vísir/ Hulda Margrét
Vísir/ Hulda Margrét
Vísir/ Hulda Margrét
Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Vísir/ Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira