„Það er mjög sérkennilegt að sjá það að þarna er flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku sem vill líta til hægri í stað þess að líta til vinstri og það er ekki eitthvað sem að við viljum sjá í okkar áherslum í borgarstjórn. Við höfum þarna tækifæri til þess að fara meira til vinstri og það er vel hægt,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins.
Þarna talar hún um jafnaðarmannaflokkinn Samfylkinguna sem er í bandalagi með Viðreisn, sem Sanna segir að ekki nokkur vafi leiki á að flokkist sem hægri flokkur. Því hafa Sósíalistar útilokað samstarf við Viðreisn sem og samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

„Við sjáum að Viðreisn talar fyrir einkarekstri, útboði og þessum markaðslausnum eins og kom skýrt fram í stefnu þeirra fyrir kosningarnar. Við Sósíalistar tölum fyrir sósíalískum og félagslegum lausnum og erum einmitt mjög í takti við þessar áherslur sem ættu að koma fram hjá jafnaðarmannaflokki,“ segir hún.
Hún segist hafa sett sig í samband við Samfylkingarmenn og reynt að tala þá af bandalaginu og leita til vinstri en ekki haft erindi sem erfiði en er þó með ákall til Samfylkingarmana um að endurhugsa sinn gang: „Það er hægt að brjóta upp þetta bandalag“.
Hún bendir á að Sósíalistar, Píratar og Framsókn hafi bætt við sig fylgi sem sé ákall á vinstri-miðjustjórn. Sósíalistar geti vel hugsað sér að vinna með Framsókn. Einn möguleikinn væri þá Samfylking, Framsókn, Sósíalistar og Vinstri græn með tólf manna meirihluta.
Vinstri græn hafa þó gefið það út að þau vilji ekki taka þátt í meirihlutaviðræðum í bili.

Þá kæmu tveir aðrir mögulegir meirihlutar myndaðir frá miðju og til vinstri til greina.
Samfylking, Framsókn, Sósíalistar og Flokkur fólksins næði einnig tólf manna meirihluta en einnig væri hægt að skipta út Flokki fólksins fyrir Pírata og mynda þannig fjórtán manna meirihluta.