„Þetta eru auðvitað bara óformleg samtöl og þetta er allt á því stigi málsins að fólk gefur agalega loðin svör, eins og þið kannski takið eftir hjá oddvitum allra flokkanna,“ sagði Hildur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hildur hitti meðal annars Einar Þorsteinsson oddvita Framsóknar í gær, en talað er um að Framsóknarflokkurinn sé í lykilstöðu í meirihlutaviðræðum í borginni.
„Þetta var flott samtal og auðvitað er mikill málefnalegur samhljómur í stefnu þessara flokka. Þetta eru stóru flokkarnir tveir sem boðuðu breytingar í kosningunum þannig að mér fannst skýrt ákall frá kjósendum á breytingar,“ segir Hildur.
Hún segir Framsókn og Sjálfstæðisflokk eiga mikla samleið. Flokkarnir séu til að mynda með keimlíka stefnu í húsnæðismálum og leggi báðir ríka áherslu á að Sundabraut verði lögð.
„Þetta eru mál sem skipta meginmáli og mun skipta miklu máli að komi til framkvæmda. Þetta eru stór, viðamikil og flókin verkefni og það gengur ekkki að fara af stað með þau í meirihluta þar sem er ekki full samstaða um að fara af stað með þessi verkefni. Ég upplifi samhljóm þarna [með Framsókn],“ segir Hildur.
Segir það svik við kjósendur gangi Framsókn Samfylkingu á hönd
Einar Þorsteinsson fundaði bæði með Hildi og Degi í gær en oddvitar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar tilkynntu það í gær að þeir ætluðu að halda saman fyrst um sinn í viðræðunum. Sú spurning hefur komið upp hvort það yrðu ekki svik við kjósendur Framsóknar, gengi flokkurinn inn í samstarf með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn, sem allir voru í meirihluta á síðasta kjörtímabili.
„Jú, auðvitað finnst manni það. Ekki síst ef hann færi saman með þessari blokk sem nú hefur stillt sér saman: Samfylking, Píratar, Viðreisn, jafnvel þótt þeim hafi verið hafnað í kosningunum, þessari blokk og þessum meirihluta,“ segir Hildur.
„Hann féll, og ekki naumlega heldur með tveimur mönnum sem eru nokkuð skýr skilaboð. Manni þætti það vera svolítið skrítið að vera flokkur sem boðar fyrst og fremst breytingar og ganga svo inn í fallinn meirihluta. Það fylgja því engar breytingar.“
Hún segir að þau Dagur hafi enn ekki rætt saman eftir kosningarnar.
„Nei, við höfum ekki gert það, ekki ennþá. En mér finnst alveg eðlilegt að við gerum það. Það er auðvitað ekkert endilega mikill málefnalegur samhljómur okkar á milli en mér finnst það eðlilegt í kjölfar kosninga að oddvitar tveggja stærstu flokkanna setjist alla vega niður saman og ræði hvernig þeir sjá hlutina fyrir sér,“ segir Hildur.
„Ég hef tekið upp símann og hringt í alla oddvita, allra framboða. Það er mín vinnuregla sem oddviti stærsta flokksins. En svo er það bara spurning hverjir eru kurteisir og taka símann og hverjir ekki. Hann hefur ekki svarað símanum. Ég hringi í alla.“
Hún bætir við að annar oddviti hafi ekki svarað henni en vill ekki greina frá hver það var.
„Það voru bara tveir sem svöruðu ekki símanum.“